Flestir hlynntir því að leikskólaréttur barna verði lögfestur

Aðgerðarhópur um brúun umönnunarbilsins hefur lagt til að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur sem aðgerð til að tryggja börnum leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi lýkur. Samkvæmt könnun Prósent eru 74% hlynnt því að réttur barna til leikskólavistar verði lögfestur á Íslandi, 18% eru hvorki hlynnt né andvíg og 8% eru andvíg. Af könnuninni má lesa að konur eru marktækt hlynntari því en karlar, 80% á móti 69%. Yngsti aldurshópurinn, 18-24, er hlynntastur lögfestingunni, 84% en sú afstaða fer dvínandi með aldrinum og eru 65 ára og eldri minnst hlynnt lögfestingunni, en eru þó hlynntari en ekki. Þá eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu hlynntari lögfestingunni en íbúar á landsbyggðinni en 78% í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum eru hlynnt lögfestingunni, en aðeins 68% íbúa á landsbyggðinni. Úrtak könnunarinnar var 1950 einstaklingar. Svarhlutfall var 50% og könnunin var framkvæmd 12.-29. desember 2025.