Verðlækkanir á bensíni hafa staðist helstu væntingar

„Já, okkur sýnist verðlækkanirnar hafa staðist þessar spár sem gerðar hafa verið,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna um verðlækkanir olíufélaganna vegna niðurfellingar olíugjalds og upptöku kílómetragjaldsins um áramótin. „Bæði FÍB og verðlagseftirlit ASÍ hafa verið að fylgjast með þessu og svo er Samkeppniseftirlitið að fylgjast náið með verðþróuninni svo lækkunin skili sér að fullu leyti til neytenda,“ segir hann. Segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Ábyrgir neytendur hafi einnig staðið vaktina og sent ábendingar um breytingarnar. „Jú við höfum verið að fá ábendingar þar sem fólk er svona að velta fyrir sér hvort það hafi verið verðhækkanir fyrir áramót,“ segir Breki. Slík verðhækkun gæti verið til þess að verðlækkun gæti virst meiri. „Við erum bara að skoða það og munum heyra í Samkeppniseftirlitinu, verðlagseftirliti ASÍ og kollegum okkar hjá FÍB strax í næstu viku og munum bera saman bækur okkar og sjá hvernig þetta hefur til tekist,“ segir Breki. Neytendur megi því búast við ábendingum um hvernig megi sem best þræða verðlækkanir olíufélaganna. Hvað borgar ferðamaður á eigin bíl? Fréttastofu barst einnig ábending frá lesanda þar sem spurt var hvort ferðamaður sem kemur hingað til lands með eigin bíl, til dæmis með Norrænu, greiði fyrir notkun á vegum. Samkvæmt vefsíðunni Vegir okkar allra , þar sem finna má upplýsingar um að ferðafólk sem kemur hingað til lands með sínar eigin bifreiðar, mun það þurfa að greiða fast akstursgjald fyrir það tímabil sem það dvelur hér á landi. Ekki kemur þó fram hve hátt það gjald er.