Það var fleira en flugeldar á himni sem gladdi augu fólks sem fagnaði nýja árinu við Meðalfellsvatn í Kjósinni. Upp úr miðnætti blasti við stór rosabaugur í kringum tunglið. Kristján Sigurjónsson sendi fréttastofu meðfylgjandi myndir sem teknar voru af þeim Guðrúnu Geirsdóttur og Áslaugu Óttarsdóttur. Kristján segir þetta hafa verið mikið sjónarspil sem varði í um rúma klukkustund. Rosabaugar sjást aðeins ef skýjahula er á himni, að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands . Þeir myndast við ljósbrot í ískröstullum í háskýjum. Rosabaugar sjást stundum kringum tunglið en oftar um sólina. Ástæða þess að þeir sjást sjaldnar um tungl er sú að það skín miklu daufar en sólin. „Birta baugs í kringum það verður því hlutfallslega minni. Þetta er líka skýringin á því að baugurinn sést helst þegar tungl er fullt þar sem tunglið er þá langtum bjartara en ella,“ segir á vef Vísindavefsins. Tunglið var nærri fullt á nýársnótt, það fyllist í fyrramálið. Þá verður það tólf sinnum bjartara en þegar það er hálft.