Í áramótaávarpi sagði Xi Jinping, forseti Kína, enn á ný að til stæði að sameina Kína og Taívan aftur undir einni stjórn. Þá var umfangsmiklum heræfingum Kínverja í kringum Taívan nýlokið. Í Þetta helst í dag er sjónum beint að stöðunni á Taívan og samskipti Kínverja og Taívana sett í sögulegt samhengi um leið og rýnt er í hvernig mál gætu þróast þar á næstu misserum, og möguleg áhrifum á önnur ríki. Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum, telur ólíklegt að það komi til vopnaðra átaka á milli Kína og Taívan á næstunni. Ef það gerist geti það þó mjög auðveldlega leitt til einhvers konar heimsstyrjaldar. „Þessar miklu heræfingar sem voru hérna um daginn voru auðvitað mjög stórar og miklar, og frekar kannski óhugnanlegar frá taívönsku sjónarhóli,“ segir Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum. „Flugsamgöngur liggja niðri og þetta hefur mikil áhrif á daglegt líf fólks. Maður skilur að þetta sé óþægilegt í alla staði. Það er jafnvel eins og þeir séu að færa sig nær og nær við hverja heræfingu,“ segir hann. Hann segir heræfingar Kínverja svar við því að Taívanar keyptu mikið af vopnum af Bandaríkjunum á dögunum. „Skilaboðin sem Kínverjar voru að senda með þessu voru ekki bara til Taívana heldur fyrst og fremst til þeirra sem eru að hafa afskipti af þessum málum, sem eru þá Bandaríkjamenn með því að selja þeim vopn, sérstaklega í svona miklum mæli, og svo eru það ummæli japanska forsætisráðherrans, Takaichi, sem að gáfu til kynna að ef Kínverjar myndu ráðast á Taívan þá væri þetta öryggisógn við Japan,“ segir Geir. Honum þykir mjög ólíklegt að Kínverjar taki þá ákvörðun að gera innrás í Taívan, það sé ekkert hlaupið að því. „Það getur haft alveg hrikalegar afleiðingar fyrir þá sem og nánast alla aðra í heiminum. Ég bara sé það ekki fyrir mér gerast.“ Þá myndu aðrar þjóðir mögulega dragast inn í átökin. Í því samhengi nefnir hann fyrst og fremst Bandaríkin, en einnig Japan og Ástralíu. „Þau myndu að minnsta kosti styðja Taívani en það er spurning hvort þau séu tilbúin að stíga það skref að taka þátt í einhvers konar varnarbaráttu, vopnuðum aðgerðum,“ segir Geir. „Þetta gæti alveg leitt til þess að verða einhvers konar heimsstyrjöld, það gæti það mjög auðveldlega. Þetta er gríðarlega mikill leikur að eldi sem er þarna á ferðinni.“ Nánar er rætt við Geir Sigurðsson um þessi mál í Þetta helst í dag.