Vill sjálfkrafa rannsóknarnefndir um náttúruhamfarir

Lögfesta þyrfti rannsóknarnefndir eftir mannskaða í náttúruhamförum, segir María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Fólk í sárum eigi ekki að þurfa að berjast árum saman til að fá hlutlausa rannsókn, eins og á snjóflóðinu í Súðavík. Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, var lögreglumaður á Flateyri þegar snjóflóð féll þar fyrir 30 árum. Hann lagði til í umsögn við frumvarp til laga um almannavarnir að rannsóknarnefnd virkist sjálfkrafa ef mannskaði hlýst af náttúruhamförum eða ef eignatjón er stórfellt. Hann vísar í umsögninni til rannsóknarnefndar um snjóflóðið í Súðavík sem nýlega lauk störfum. „Ég tel að það sé langbesta leiðin að lögbinda þetta með einhverjum hætti þannig að þetta ferli sé ekki bara handahófskennt, að einn og einn atburður sé tekinn fyrir,“ segir María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Hún birti í dag pistil í Morgunblaðinu þess efnis. Lög um almannavarnir eru í heildarendurskoðun hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Hún segir slíkar nefndir vera sambærilegar við rannsóknarnefnd samgönguslysa. Við bílslys, flugslys eða sjóslys virkjast sjálfkrafa rannsóknarnefnd. María segir ótækt að fólk sé sett í þau spor að berjast fyrir því árum saman að fá hlutlausa rannsókn, eins og aðstandendur þeirra sem fórust í Súðavík árið 1995. Í kjölfar þess að nefndin birti niðurstöður sínar hefur fólk sem beið skaða í snjóflóðinu á Flateyri kallað eftir svipaðri rannsókn. „Mér finnst að þarna eigi löggjöfin að vera skýr og þetta sé hluti af almannavarnakerfinu okkar að við gerum hlutina upp með hlutlausum hætti,“ segir María. Í pistlinum kemur fram að hún ætli að beita sér fyrir því að fylgja henni eftir á Alþingi með breytingartillögu þar um. Aðspurð segir María málið á frumstigi, gestakomur og fleira eftir í vinnslu þess. Hún segir kostnað við slíka nefnd ekki ljósan. „Kostnaðurinn við það að gera þetta ekki getur líka verið gífurlegur, bæði í formi þess að spyrja fólk eftir í sárum og með stórar spurningar sem ekki fást svör við. Ég held það sé flókið að meta kostnað við tilfinningalíf og áfallaþol þjóðarinnar.“