Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari valdi 18 manna hóp rétt fyrir jól sem kom saman til æfinga í dag. Að auki æfir markvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson í Aftureldingu með landsliðinu næstu daga og þá standa enn vonir til þess að skyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson geti bæst við íslenska hópinn þegar líður á EM, en hann hefur verið meiddur og var því ekki valinn í 18 manna EM hópinn. Á morgun gefst almenningi kostur á að fylgjast með æfingu íslenska landsliðsins. Þá verður opin æfing í íþróttahúsinu í Safamýri. Æfingin hefst klukkan hálfellefu en salurinn opnar stuttu áður. Æfingunni lýkur svo klukkan 12 á morgun og þá gefst almenningi kostur á að fá eiginhandaráritanir og taka myndir með leikmönnum. Íslenska liðið æfir svo á Íslandi til sjöunda janúar en mun degi síðar halda til Frakklands á æfingamót þar sem leikið verður við Slóvena og svo annað hvort Frakka eða Austurríkismenn eftir því hvernig Slóveníuleikurinn fer. Fyrsti leikur Íslands á EM verður svo 16. janúar á móti Ítalíu, en aðrir leikir Íslands í riðlakeppni Em verða við Pólverja og Ungverja. Riðillinn verður leikinn í Kristianstad en tvö efstu lið riðilsins komast í milliriðlakeppnina sem verður í Malmö í Svíþjóð. Sem fyrr verða allir leikir Íslands á EM sýndir á RÚV, sem og æfingaleikirnir um aðra helgi. Þá verður leikjum Íslands á EM einnig lýst sérstaklega í útvarpinu á Rás 2.