Lífvörður úr lífvarðarsveit danska konungsins, sem hrinti loftslagsaðgerðasinna við Amalíuborgarhöll á gamlársdag, hefur verið tilkynntur til lögreglu. Þetta staðfestir lögreglan í Kaupmannahöfn við danska ríkisútvarpið . Venjulega rata slík tilfelli á borð rannsóknarnefndar hermála í landinu. Vörðurinn gengur að aðgerðasinna við höllina, sem virðist kominn nær vörðunum en mörk leyfa, og hrindir honum í jörðina áður en hann gengur til baka á sinn stað. Atvikið náðist á myndskeið sem farið hefur víða á netinu og skapað miklar umræður í Danmörku. Borgarfulltrúi Íhaldsflokksins í Kaupmannahöfn deildi því meðal annars á X og virtist lýsa yfir ánægju með snör viðbrögð lífvarðarins. Jeg elsker alt ved dette optrin på Amalienborg. pic.twitter.com/XYvfc3KZVI — Niels Peder Ravn (@npravn) December 31, 2025 Danska ríkisútvarpið hefur rætt við Oskar Kluge, þann sem vörðurinn hrinti, og hann segist ekki standa að baki tilkynningunni. Hann hefur sjálfur verið tilkynntur til lögreglu vegna málsins. Talsmaður lífvarðasveitar konungs segir að vörðurinn hafi verið í fullum rétti til þess að bregðast við ágangi Kluges. Danir hafa skipst á skoðunum um hvort viðbrögð varðarins hafi verið rétt eða ekki og hvort refsa beri honum fyrir þau. Þeir sem saman voru komnir við Amalíuborgarhöll á gamlárskvöld til að fylgjast með árlegri sýningu lífvarðanna virtust þó á einu máli, þar sem baulað var á Kluge þegar hann hóf mótmæli sín, haldandi á fána með áletruninni: „Grípum í neyðarhemilinn“.