Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson fer í fyrstu loðnuleit ársins á næstu dögum en starfandi forstjóri Hafrannsóknarstofnunar er bjartsýnn á að Þórunn Þórðardóttir verði með í för í síðari hluta mánaðarins. Nýja hafrannsóknarskipið Þórunn Þórðardóttir kom til landsins síðasta vor og brátt komu ýmsir gallar í ljós. Meðal þess sem þurfti að gera var að skipta út gömlum botnlokum. „Það var eitt og annað sem hefur þurft að laga og unnið er að því. Það er verið að klára og hnýta lausa enda,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, starfandi forstjóri Hafrannsóknarstofnunar. „Árni Friðriksson fer í fyrstu leit eftir helgi. Árni, Þórunn og fleiri fara síðar í mánuðinum.“ Búist er við því að heildarloðnumæling hefjist upp úr miðjum mánuði. Gert er ráð fyrir að endurtaka þurfi leit og mælingu í byrjun febrúar líkt og undanfarin ár. Hafrannsóknarstofnun lagði til tæplega 44.000 tonna loðnuveiði í endurskoðaðri ráðgjöf í október. Sú ráðgjöf verður endurmetin þegar niðurstöður bergmálsmælinga á stærð stofnsins liggja fyrir í byrjun árs.