Hvað er yfirtendrun?

Hugtakið yfirtendrun hefur verið notað til þess að lýsa eldsvoðanum í Crans Montana í Sviss þar sem 40 létust og 115 slösuðust á nýársnótt. Eldsupptök hafa ekki fengist staðfest en sjónarvottar segja að eldur hafi gleypt Le Constellation í sig eftir að barþjónar héldu flöskum með áramótablysum of nærri lofti skemmtistaðarins. Það hafi kveikt eld sem síðan barst um allan staðinn á örfáum sekúndum. Embættismenn í Sviss segja að aðstæður á staðnum hafi valdið því að svokölluð yfirtendrun átti sér stað. Rými geti orðið alelda á svipstundu Birgir Finnsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir yfirtendrun vel þekkt hugtak í slökkvistarfi. „Ef það verður eldur í rými þá gefur eldurinn frá sér brennanlegan reyk,“ segir hann og tekur fram að svarti reykurinn sem margir hafa séð leggja frá stórum bruna sé fullur af brennanlegu gasi. Það kvikni þó ekki í gasinu nema aðstæður séu með ákveðnum hætti. „Upphafseldurinn eru þá logarnir, þeir eru kannski ekki nægilega kraftmiklir til þess að kveikja í þessum reyk,“ segir Birgir. „Það vantar eitthvað upp á og það er þetta sem við köllum brunaþríhyrninginn. Þú þarft eldsneyti sem þarna er í reyknum, þú þarft hita sem er þá að koma af upphafseldinum og þú þarft súrefni,“ segir hann. Breytingar á slysstað, eins og þegar einhver opnar hurð eða gluggi brotnar með tilheyrandi þrýstingsfalli, geti svo valdið því að súrefni streymir inn og blandast við brunagösin. „Svo kemst súrefnið í upphafseldinn og það kveikir í öllum reyknum og þá verður það sem við köllum yfirtendrun. Þá allt í einu er rýmið orðið alelda og það er í raun og veru reykurinn sem er að brenna og hann kveikir síðan í húsgögnum eða fatnaði eða málningu á veggjum eða öðru slíku sem er kannski töluvert frá upphafslogunum,“ segir Birgir. Birgir segir að slökkviliðið sé þjálfað í að bregðast við í slíkum aðstæðum og rými séu til dæmis reykræst til þess að koma í veg fyrir yfirtendrun. Hann bendir fólki almennt á að ef ekki næst að slökkva upphafseldinn sé best að forða sér út úr rýminu. Sprenging eða eldsvoði? Fyrst þegar greint var frá eldsvoðanum í Sviss var talið mögulegt að staðurinn hefði sprungið. Birgir segir að yfirtendrun geti fylgt skyndileg þrýstingsaukning líkt og þegar sprenging á sér stað. „Það geta sprungið út rúður og maður sér til dæmis þegar við erum að þjálfa okkur þá sjáum við kannski hurð sem slökkviliðsmenn eru að fara inn um og allt í einu kemur svartur, þykkur reykur á móti þeim og breytist í eldhaf og þeir kastast frá því þrýstingsaukningin verður svo mikil,“ segir Birgir sem telur líklegt að upphaflega hafi verið fjallað um eldsvoðann sem sprengingu vegna þessa. „Þó að maður þekki auðvitað ekki aðstæður þarna aðrar en þær sem maður hefur lesið í fréttum þá er það ekki óvanalegt að fólk telji að það hafi orðið sprenging þegar það verður yfirtendrun.“ segir Birgir.