Spillingarlögreglan í Hong Kong (ICAC) handtók í síðustu viku 21 vegna gruns um spillingu í byggingastarfsemi, einkum og sér í lagi við uppgerð og viðhald stórra blokka þar í borg. Í tilkynningu ICAC frá í morgun segir að þeir sem eru í haldi séu á aldrinum 30-81 árs, fimmtán karlar og sex konur, og að þau fari fyrir tveimur stórum framkvæmdum í Kwun Tong-hverfi. Sumir hverjir eru sagðir hafa tengsl við kínversku mafíuna. Aðeins tæpir tveir mánuðir eru síðan 160 létust í miklum bruna í blokkarsamstæðu í Tai Po-hverfi Hong Kong. Eftir brunann lofuðu yfirvöld að gera gangskör í rannsóknum á spillingu í byggingaiðnaðinum. Sérstakri rannsóknarnefnd var komið á fót. Tvo daga tók að slökkva eldana og íbúar segja að ódýr og jafnvel ólögleg efni hafi verið notuð við byggingu blokkanna eða endurbætur, sem gerðu að verkum að eldurinn varð mun erfiðari viðfangs en ella. ICAC segir að í annarri framkvæmdinni sé fólk grunað um að beita mútum til þess að tryggja sér 33 milljón dollara verktökusamning. Við hina framkvæmdina á fólkið að hafa tryggt fyrirtæki sínu verktakasamning með því að safna atkvæðum húseigenda með ólöglegum leiðum, án þess að farið sé nánar út í það í tilkynningu ICAC. Framkvæmdirnar sem um ræðir tengjast ekki brunanum í nóvember. ICAC hefur þegar handtekið fólk í tengslum við hann.