Virðingarleysi Bandaríkjanna hafi haft áhrif á þjóðina alla

Jens-Frederik Nielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, segir virðingarleysið og yfirlætið sem Bandaríkin hafi sýnt Grænlendingum hafa haft áhrif á alla þjóðina. Hann flutti fyrsta nýársávarp sitt í sjónvarpi í gærkvöld og talaði tæpitungulaust um áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi á nýliðnu ári. Nielsen nefndi Bandaríkjaforseta ekki á nafn í ávarpinu en það fór ekki á milli mála um hvern var rætt. Nilsen segir að forganga eins manns á árinu hafi orðið til þess að stærstu mótmæli í sögu landsins urðu að veruleika og vísaði til mótmæla gegn Bandaríkjaforseta á landsvísu í mars. „Skilaboðin voru þau að ekki væri hægt að innlima landið okkar svo auðveldlega og að landið okkar er ekki til sölu,“ sagði Nielsen. „Vendingar síðustu daga hafa því miður gert það að verkum að við neyðumst til að ítreka þessi skilaboð okkar. Grænland er okkar land. Við ákveðum sjálf framtíð landsins okkar.“ Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur haldið áfram að lýsa áhuga á Grænlandi, síðast í liðinni viku. Þá sagði hann það nauðsynlegt af þjóðaröryggisástæðum. Stuttu áður hafði hann skipað Jeff Landry, ríkisstjóra Louisiana, sem sérstakan sendifulltrúa fyrir Grænland.