Almenningur kom „eins og stormsveipur“ inn á hlutabréfamarkaðinn

Hlutabréfavísitala aðalmarkaðar íslensku kauphallarinnar lækkaði um 8,97% árið 2025. Að teknu tilliti til arðgreiðslna lækkaði vísitalan um 5,93%. Sé aðeins horft til úrvalsvísitölunnar, þá lækkaði hún um 2,08% á síðasta ári. Arðgreiðslur ársins náðu þó að dekka tapið, leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði vísitalan um 0,4%. Þetta kemur fram í ársyfirliti Nasdaq á Íslandi. Úrvalsvísitalan er samsett af stærstu fyrirtækjunum og þeim sem mest viðskipti eru með á hlutabréfamarkaði Nasdaq. Vísitalan tekur mið af verði og verðbreytingum 15 fyrirtækja. Viðburðaríkt og krefjandi ár að baki „Árið 2025 var bæði viðburðaríkt og krefjandi fyrir íslenskan verðbréfamarkað,“ er haft eftir Finnboga Rafni Jónssyni, framkvæmdastjóra viðskipta hjá Nasdaq Iceland, í tilkynningu. „Háir vextir og verðbólga settu svip sinn á hlutabréfamarkaðinn, en almenningur kom þó eins og stormsveipur inn á markaðinn í hlutafjárútboði Íslandsbanka, sem var án efa stærsti viðburður ársins.“ Finnbogi segir þátttöku almennings hafa aukist enn frekar eftir útboðið. Það hafi styrkt dýpt og virkni markaðarins. „Þrátt fyrir áskoranir skynjum við mikinn áhuga félaga á skráningu á markað og eygjum við nýskráningar á komandi ári sem gefur tilefni til aukinnar bjartsýni fyrir árið 2026.“ Arion hækkaði um 21% en Alvotech lækkaði um 64% Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 1.055 milljörðum eða 4.270 milljónum á dag. Veltan dróst saman um 16% á milli ára. Fjöldi viðskipta nam rúmlega 124 þúsundum eða um 502 á dag. Það er 28% aukning á milli ára. Hlutabréf Arion banka hækkuðu mest á síðasta ári, eða um 21%. Þar á eftir koma bréf Íslandsbanka sem hækkuðu um 19%. Verð bréfa Festi hækkaði um 14% og Haga um 10%. Mest lækkaði verð á hlutabréfum Alvotech, um 64%. Verð Sýnar lækkuðu um 44% og hlutabréf í Icelandair lækkuðu um 39% á liðnu ári.