Snjalltæki geta hækkað í verði vegna gervigreindarkapphlaupsins

Búast má við því að snjalltæki hækki í verði á næstu mánuðum. Mikil og hröð þróun gervigreindar keyrir upp verð á tölvubúnaði. Tæknisérfræðingur segir að neytendur gætu fundið fyrir verðhækkunum ætli þeir að kaupa sér nýjustu símana. Tekur að minnsta kosti tvö ár að auka framleiðslugetu „Verð á eiginlega öllum snjalltækjum og tölvum og spjaldtölvum mun væntanlega hækka af því að það er skortur á vinnsluminni í heiminum. Það eru eiginlega öll tæki sem á einhvern hátt nýta tölvur, þau þurfa vinnsluminni, og ástæðan er bara af því að gervigreindin er að éta upp allt vinnsluminni sem framleitt er í heiminum,“ segir Guðmundur Jóhannsson, tæknisérfræðingur. Tæknilega flókið er að búa til vinnsluminni, sem er íhlutur í tölvum, og það er tímafrekt að auka framleiðslugetu. „Það er sagt að það muni taka tvö ár hið minnsta að ná framleiða meira eða auka framleiðslugetuna. Þannig að á meðan þetta gervigreindarkapphlaup er í gangi og það er verið að byggja öll þessi gagnaver og allt sem þarf til að fæða alla þessa gervigreind þá þýðir það bara að þessi stóru, stóru fyrirtæki, og á einhvern hátt heilu ríkin, eru að kaupa allt vinnsluminni sem er á markaðnum. Og þau eru ekki endilega að spyrja um hvað það kostar og það bitnar þá á okkur venjulega fólkinu.“ Verðin breytast hratt, jafnvel á klukkutímafresti Vinnsluminni er íhlutur sem þarf í allt sem tengist tölvum, spjaldtölvum, leikjatölvum, snjallsímum og fleiru. „Þó að það sé kannski mjög lítið vinnsluminni í venjulegum heimilistækjum þá er samt vinnsluminni í eiginlega öllu og allt kostar þetta.“ Guðmundur nefnir dæmi um tölvuverslanir í Bandaríkjunum sem hafa þurft að fjarlægja verðmerkingar því verðin breytist hratt, jafnvel á klukkutímafresti. „Fyrir venjulega tölvu þá eru 32 GB af vinnsluminni bara nokkuð gott, ekkert óheyrilega mikið heldur, en bara nokkuð gott. Verð til dæmis á svoleiðis kubbi hefur kannski hækkað yfir 200% á síðustu sex mánuðum.“ Byrja að spara núna ef fólk ætlar að kaupa nýja síma Guðmundur bendir einnig á að aðeins þrjú fyrirtæki framleiða yfir 90 prósent alls vinnsluminnis í heiminum. „Þessi fyrirtæki eru líka í auknum mæli að búa til aðra tegund af vinnsluminni, hábandvíddarvinnsluminni. Það er sérstaklega notað í skjákortin, bæði frá Nvidia og Google, sem eru reiknigeta gervigreindarinnar í raun og veru. Þannig að venjulega vinnsluminnið er notað í tölvur og gagnaverin þurfa öll tölvur en í þær tölvur þarf líka þessi skjákort og þau þurfa aðra útgáfu af vinnsluminni. Þannig að þessi fyrirtæki sem búa til allt þetta minni eru líka bara að búa til annað minni. Þá er framboðið af „venjulega“ minninu sem við þurfum, bara minna á meðan.“ Guðmundur segir erfitt að segja til um verðhækkanir á Íslandi þar sem fyrirtæki eigi enn lager. „Ég held að það sé frekar núna þegar þessi stóru fyrirtæki eins og Apple eða Samsung, sem framleiða raftæki sem við erum kannski að kaupa á hverju ári, eins og nýja síma eða svoleiðis, ég held að það verði kannski fyrsta dæmið sem við sjáum. Þegar þessi fyrirtæki munu á þessu ári gefa út nýjustu flaggskipin sín, þá sé kannski smá hækkun á þessum tækjum. Hún verður kannski ekki rosalega mikil en hún verður einhver.“ Þannig að þeir sem ætla að fá sér nýja síma á þessu ári verða að búa sig undir það? „Byrja að spara.“