Herjólfur, rafmagnsferjan sem siglir til og frá Vestmannaeyjum, er hætt að hlaða í Vestmannaeyjum vegna verulegra hækkana á gjaldskrá fyrir flutning raforku til eyja. Þetta hafa Eyjafréttir eftir framkvæmdastjóra Herjólfs, Ólafi Jóhanni Borgþórssyni. Í kjölfar hækkunarinnar mun Herjólfur sigla á olíu frá Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar. Ferjan mun þó áfram halda áfram að hlaða í Landeyjahöfn, þar sem verð er mun hagstæðara, og siglir því áfram á rafmagni aðra leið. Landsnet og ráðherra hafi verið upplýstir Herjólfur var hannaður sem rafmagnsferja til að draga úr olíunotkun og minnka kolefnisspor ferjusiglinga. Ólafur segir með ólíkindum að ríkið skuli fyrst fjárfesta í rafvæðingu ferjunnar en taka ákvarðanir um svo gríðarlegar hækkanir að það leiði til þess að knýja þurfi skipið á olíu aðra leið. Hann kallar eftir því að ákvörðun Landsnets verði endurskoðuð. Hækkun gjaldskráarinnar komi ofan á boðaðan niðurskurð á fjárframlagi til ferjusamgangna. Rekstur ferjunnar sé þar með kominn í afar þrönga stöðu sem kunni að leiða til hækkunar á fargjöldum. Bæjarstjóri Vestamannaeyja, Íris Róbertsdóttir, tjáði sig um málið á Facebook og sagði það afleitt fyrir alla aðila. Það komi þó ekki á óvart enda hafi bæði ráðherra umhverfis- og orkumála og forstjóra Landsnets verið upplýst um afleiðingar ákvörðunarinnar. „Því bera samt að halda til haga að það er mjög jákvætt að komnir séu tveir nýir strengir sem auka afhendingar öryggi á rafmagni til mikilla muna sem er nauðsynlegt í þessari miklu uppbyggingu sem á sér stað hér í Eyjum. En þessar hækkanir á fólk og fyrirtæki hér eru alltof og miklar og koma allt of skart,“ segir Íris.