Sex klukkustunda gjaldfrjáls leikskóli í Hafnarfirði

Foreldrar leikskólabarna í Hafnarfirði þurfa ekki að greiða fyrir vistun undir sex klukkustundum á dag samkvæmt breytingum sem tóku gildi um áramótin. Aðeins er greitt fyrir fæði nema börnin séu lengur en sex klukkustundir í leikskólanum. „Með sex tíma gjaldfrjálsum leikskóla erum við að létta undir með fjölskyldum og styrkja jafnvægið milli fjölskyldulífs og atvinnu,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar í tilkynningu sem birt var á vef bæjarins . Með breytingunum sé tryggt að gæði leikskólastarfsins skerðist ekki og að jafnræði ríki óháð aðstæðum foreldra. Samkvæmt tilkynningunni fela breytingarnar ekki í sér hækkun leikskólagjalda vegna vistunar barna sem fer yfir sex klukkustundir. Gjöld fyrir fulla vistun hækka aðeins um það sem nemur almennri hækkun á gjaldskrá Hafnarfjarðar um áramót. Með reiknivél leikskólagjalda á hafnarfjordur.is er hægt að reikna út leikskólagjöld. Miðað við vistun frá klukkan 8:00 til 16:00 alla virka daga verða leikskólagjöld fyrir eitt barn rúmlega 44.000 krónur á mánuði. Sé vistunin aðeins milli klukkan 8:00 og 14:00 eru þau hins vegar 10.473 krónur á mánuði. „Dagarnir mega vera mislangir svo framarlega sem dvölin sé ekki lengri en 30 klukkustundir á viku. Eina skilyrðið er fjögurra stunda lágmarksdvöl á dag alla virka daga,“ segir á vef Hafnarfjarðarbæjar. Leiðinni svipar til hins svokallaða Kópavogsmódels sem hefur verið umdeilt. Þá var gjaldskrá hins vegar hækkuð samhliða því að sex klukkustunda vistun var gerð gjaldfrjáls í leikskólum Kópavogs. Borið hefur á gagnrýni foreldra leikskólabarna í Kópavogi. Í rannsókn Sunnu Símonardóttur í október sögðust sumir foreldrar til að mynda að breytingunum fylgdi kostnaðaraukning og streita við að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Svipaðar breytingar hafa einnig verið boðaðar í Reykjavík með það að markmiði að stytta dvalartíma leikskólabarna með hvötum í gjaldskrá. Stjórn Vinstri grænna í Reykjavík, sem á aðild að meirihlutanum í borginni, hefur hins vegar lagst gegn henni, meðal annars á þeim forsendum að þær feli í sér viðamikla gjaldkrárhækkun.