Árið 2025 var það hlýjasta frá upphafi mælinga

Árið 2025 var það hlýjasta frá upphafi mælinga hér á landi. Meðalhiti í byggð var 5,2 stig á árinu. Það er 1,1 stigi yfir meðaltali áranna 1990 til 2020. Hiti var yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í janúar, júní, október og nóvember. Áður var árið 2014 hlýjasta árið á landsvísu. Maí 2025 var sá hlýjasti frá upphafi mælinga. Þá náði hiti 20 gráðum tíu daga í röð. Landsmet fyrir maí féll á Egilsstaðaflugvelli þegar 26,6 stiga hiti mældist. Rúmlega 90 ára gamalt hitamet fyrir júlí var jafnað á árinu og í ágúst mældist 29,8 stiga hiti á Egilsstaðaflugvelli. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í nærri áttatíu ár. Þá féll hitamet fyrir desember á aðfangadag þegar hitinn fór í 19,8 stig. Kristín Björg Ólafsdóttir er sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands . „Það hefur náttúrlega hlýnað undanfarin ár. Þá hlýnun má að einhverju leyti skýra með losun gróðurhúsalofttegunda. Síðustu ár hafa verið þau hlýjustu á heimsvísu, 2023 og 2024 voru hlýjustu árin og ég held að 2025 verði líka eitt af þeim hlýjustu.“ Er þetta merki um að það takist ekki nógu vel að takast á við þessa ógn? „Já það mætti alveg segja það. En þetta er náttúrlega það sem allar spár gera ráð fyrir – að það fari hlýnandi.“