Bætt greiningarvinna og markvissar aðgerðir lögreglu skýra að hluta til met í haldlagningu fíkniefna á liðnu ári, að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Metið sé þó tilkomið vegna samspils ólíkra þátta. „Þetta getur endurspeglað bæði breyttar aðferðir skipulagðra brotahópa við smyglaðferðir og svo vil ég nú meina fyrst og fremst markvissara starf og samvinnu lögreglu og tollgæslu,“ segir Ævar. Hann segir samstarf við erlendar löggæslustofnanir einnig hafa verið gott á liðnu ári. Lögregla og tollgæsla lögðu hald á 468 kíló af marijúana og 106 kíló af kókaíni á síðasta ári, sem er met. Innflutningsmál voru 140 sem er um 80% meira en meðaltal síðustu þriggja ára á undan. Ævar Pálmi segir aukna eftirspurn líklega eina af skýringum á metinu. Það sé þó tilkomið vegna samspils ólíkra þátta. Ómögulegt sé að segja til um hvort búast megi við viðlíka tölum í ár. Hann segir heldur ekkert einhlítt svar við hvað gæti skýrt aukna eftirspurn hér á landi. „En það svo sem er þekkt og hefur verið rannsakað að því meiri velmegun í samfélagi, því meiri fíkniefnaneysla og þá sérstaklega á þessum dýrari efnum eins og kókaíni.“