Sífellt fleiri aldraðir bera neyðarhnapp vegna ótta við ofbeldi nánustu aðstandenda. Fleiri leituðu sér aðstoðar vegna ofbeldis eftir að Súlunesmálið, þar sem kona beitti foreldra sína langvarandi ofbeldi, komst í hámæli. „Þegar við sjáum að svona alvarleg mál koma upp þá skekur það samfélagið,“ segir Jenný Kristín Valberg teymisstýra Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Mikil aukning varð í hópi fólks eldra yfir sextugu sem leitaði til Bjarkarhlíðar á árinu sem var að líða. Af tölum Bjarkarhlíðar má sjá að á milli áranna 2024 og ´25 varð 100% aukning í fjölda þeirra sem eru 71 árs og eldri og leituðu til Bjarkarhlíðar. Á sama tímabili varð um þriðjungs aukning hjá þeim sem eru 61-70 ára. Þegar allir skjólstæðingar Bjarkarhlíðar eldri en 61 árs eru teknir saman sést að þeir voru 45 árið 2024 og 67 árið 2025. Það nemur hátt í 50% aukningu. Fjölskyldutengsl flækja málin Gerendurnir eru oftast makar og/eða uppkomin börn, náin fjölskyldutengsl flækja málin og ofbeldið getur verið lúmskt. Jenný segir að ofbeldi gagnvart öldruðum komi ekki fram í tölfræði lögreglu því fólk veigri sér við að kæra nána ættingja - en mikilvægt sé að tilkynna til lögreglu. „Það er oft óljóst fyrir þolendur, óháð aldri, hvað er ofbeldi í nánum samböndum því þolendum er oftast kennt um ofbeldið sem þeir verða fyrir.“ Og birtingarmyndirnar eru ýmsar. „Við sjáum mjög mikið andlegt ofbeldi,“ segir Jenný. „Það er verið að ógna fólki, það er þessi nauðungarstjórnun þar sem allt er gert vitlaust á heimilinu og þolandinn er hræddur til að láta að vilja gerandans.“ Tvöfalt fleiri yfir sjötugu leituðu til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar þolenda ofbeldis á nýliðnu ári en árið á undan. Dæmi eru um að uppkomin börn neyði foreldra til að selja ofan af sér og svíki út lyf þeirra. Og birtingarmyndirnar eru ýmsar. „Við sjáum mjög mikið andlegt ofbeldi,“ segir Jenný. „Það er verið að ógna fólki, það er þessi nauðungarstjórnun þar sem allt er gert vitlaust á heimilinu og þolandinn er hræddur til að láta að vilja gerandans.“ Bera neyðarhnapp Þá er fjárhagslegt ofbeldi algengt - þar sem uppkomin börn eru meira eða minna á framfæri hins aldraða og krefjast þess að hafa aðgang að fjármunum hans. „Við sjáum jafnvel dæmi um að reynt sé að fá fólk til að selja ofan af sér eða selja eigur sínar til að láta uppkomin börn fá. Og svo sjáum við því miður líka að það er oft verið að leysa út lyf og annað sem þolandi þarf að taka og gerandi annaðhvort að nota sjálfur eða koma því einhvern veginn í verð.“ Það verður sífellt algengara, að sögn Jennýjar, að aldraðir þolendur ofbeldis beri neyðarhnapp svo þau geti látið vita, telji þau sig vera í hættu. „Að taka upp símann og hringja getur ýtt undir reiði og ofbeldishegðun geranda. En ef þú ert með neyðarhnapp, annaðhvort í vasa eða veski, þá er hægt að ýta á hann án þess að gerandi sjái.“ „Hætta að tala og láta verkin tala“ Sigurður Ágúst Sigurðsson, varaformaður Landssambands eldri borgara, segir skorta samráð varðandi heimilisofbeldi gegn eldra fólki. Málin séu rædd á mörgum stöðum. „Það er til dæmis enginn miðlægur gagnagrunnur til í heilbrigðiskerfinu um þessi mál. Lögreglan og neyðarlínan hafa haldið utan um statistik um þessi mál og við erum að byggja á þeim gögnum varðandi það hvað er hægt að gera í nánustu framtíð. Hætta að tala og láta verkin tala,“ sagði Sigurður í kvöldfréttum sjónvarps. Hann nefnir þar óvissu í tengslum við trúnað milli læknis og sjúklings, þagnarskyldu og hvenær læknar eigi að tilkynna grun um ofbeldi til lögreglu. Læknar viti ekki í hvorn fótinn þeir eigi að stíga þrátt fyrir augljós merki um ofbeldi.