Stjórnvöld í Ísrael ætla ekki að endurnýja leyfi 37 alþjóðlegra mannúðarsamtaka á Gaza. Þar á meðal eru Læknar án landamæra, Oxfam og Norska flóttamannaráðið. Þau þurfa að hætta starfsemi þar eftir tvo mánuði. Amjad Al-Shawa, framkvæmdastjóri PNGO, Sambands palestínskra hjálparsamtaka, segir að þessi ákvörðun Ísraela komi niður á fjölmörgum frjálsum félagasamtökum sem hafi starfað á Gaza í áratugi, einkum meðan stríðið hafi geisað. „Þetta hefur alvarlegar afleiðingar fyrir íbúana í þeirri stórfelldu neyð sem ríkir.“ Sameinuðu þjóðirnar og aðrar mannúðarstofnanir hafa hvatt Ísraela til að hleypa sendingum með teppi og aðrar neyðarvistir inn á Gaza til að hjálpa fólki í vetrarkuldanum. 18 samtök í Ísrael hafa fordæmt ákvörðunina og segja hana brjóta í bága við grundvallarreglur um mannúð.