Jeppaeigendur spara tugi þúsunda með tilkomu kílómetragjalds í stað bensíngjalds en eigendur sparneytinna bíla þurfa að greiða tugum þúsunda meira en áður. ASÍ telur þetta koma sér illa fyrir efnaminni og fara gegn markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eldsneytisverð lækkaði um þriðjung um áramótin. Á móti kemur að ökumenn þurfa að greiða kílómetragjald fyrir hvern ekinn kílómetra. Kílómetragjald á fólksbíla er 6,95 krónur. Það þýðir að jeppi og smábíll bera sama gjald. Miðað við fimmtán þúsund kílómetra akstur á ári greiða báðir um 104 þúsund krónur á ári. „Eigendur minni og sparneytnari bíla eru að borga sama kílómetragjald á ekinn kílómetra og við teljum það ekki beint styðja við stefnu stjórnvalda um sparneytnari bíla og minni losun,“ segir Ágúst Arnórsson, hagfræðingur hjá ASÍ. Tökum sem dæmi jeppa sem gengur fyrir bensíni og er með meðaleyðslu 10,5 lítra á hundraðið. Lægsta bensínverð fyrir breytingu var 279,7 krónur. Jeppaeigandinn greiddi þá ríflega 440 þúsund krónur í fyrra. Lægsta bensínverð er núna 183,1 króna. Hann greiðir þá tæpar 290 þúsund krónur í bensín núna og 104 þúsund í kílómetragjald, samtals ríflega 390 þúsund. [392.633 kr.] Tökum dæmi um lítinn smábíl sem eyðir að meðaltali 4,9 lítrum á hundraðið. Eigandi hans greiddi þá um 205 þúsund krónur í fyrra. Núna borgar hann tæpar 135 þúsund krónur í bensín en með kílómetragjaldinu greiðir hann samtals hátt í 240 þúsund. [238.825,5 kr.] Jeppaeigandinn er þá að spara hátt í fimmtíu þúsund krónur [-47.895 kr.] Eigandi smábílsins er aftur á móti að borga ríflega þrjátíu þúsund krónum meira [33.249 kr.] Kílómetragjaldið kemur betur út fyrir stóra og orkufreka bíla en verr út fyrir litla og sparneytna bíla. Jeppaeigendur gætu sparað tugi þúsunda á ári, en smábílaeigendur gætu þurft að greiða tugum þúsunda meira en áður. „Við höfum áhyggjur af því, almennt myndi maður ætla að þeir sem eru á minni og ódýrari bílum að það sé þá að jafnaði tekjulægra fólk og þá sem sagt eru byrðarnar að leggjast þyngra á þau heldur en þá sem eru á dýrari bílum,“ segir Ásgeir. Hann segir svigrúm til enn frekari verðlækkunar, líkt og ASÍ hefur bent á. „Eins og við höfum verið að tala um í okkar málflutningi þá söknum við ennþá lækkunar frá árinu 2025.“