Þinglýstum kaupsamningum hefur fækkað verulega frá því að vaxtadómurinn féll í október. Fólk hélt að sér höndum vegna óvissunnar sem þá skapaðist á lánamarkaði. En nú eru komnar fram vísbendingar um að kaupáhuginn hafi tekið við sér að nýju. „Það sem stendur kannski upp úr er að það hefur kólnað hægt og rólega á fasteignamarkaði,“ segir Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Verðþrýstingurinn hafi minnkað nokkuð mikið frá byrjun árs, en það séu nýjar íbúðir sem seljist seint og illa. „Og þessi dræma sala á nýjum íbúðum hún hefur dregið úr eftirspurnarþrýstingi á fasteignamarkaðinum,“ segir Jónas Atli. Flestar nýjar íbúðir séu 80-120 fermetrar að stærð en nóg sé til af þeim fyrir. Minni íbúðir hafi selst betur en ekki sé nægt framboð af nýjum minni íbúðum sem eru 50-80 fermetrar. Þá sé einnig umframeftirspurn eftir stærri eignum og séreignum sem eru 150 fermetrar og meira. „Þannig að það mætti segja að það sé ofgnótt af meðalstórum íbúðum meðan að stærri og smærri íbúðir eru af skornari skammti.“ Meðalaldur fyrstu kaupenda 30 ár Jónas Atli segir að talsverður þróttur hafi verið á síðasta ári hjá fyrstu kaupendum þó meðalaldur þeirra, um 30 ár, hafi lítið breyst síðustu árin. „Töluverður fjöldi þeirra hefur komist inn á markaðinn núna eða um það bil 30% allra kaupenda í fyrra voru fyrstu kaupendur. Það var ekki það sem hefði mátt búast við miðað við hvað það er erfitt að kaupa íbúð akkúrat núna.“ Það hefur kólnað hægt og rólega á fasteignamarkaði síðasta árið. Verðþrýstingur hefur minnkað og nýjar íbúðir seljast seint og illa. Þetta segir hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. En erum við að sjá verðlækkanir? „Við höfum ekki enn séð verðlækkanir, nafnverðslækkanir allavega en íbúða verð hefur ekki hækkað í takt við verðbólgu og þá er talað um raunverðslækkun sem mætti búast við þegar að það er svona að kólna og kreppa að á húsnæðismarkaði.“ Jónas Atli segir sjaldgæft að fasteignaverð lækki. „Það getum við líka séð ef að við horfum aftur í tímann, að verð lækkar sjaldan. Nema að það gerist eitthvað mjög alvarlegt.“ Mjög hafi dregið úr hækkunum Það sem hafi einkennt árið 2025 sé að mjög hafi dregið úr hækkun íbúðaverðs á meðan verðbólga hafi verið stöðug í um það bil 4 prósentum. Íbúðaverð hækki því minna en almennt verðlag. Jónas Atli spáir að ef vextir haldi áfram að vera háir þá muni vera áfram erfitt að komast inn á fasteignamarkaðinn. „Og þá mun eftirspurnin vera í skefjum en það er þrátt fyrir allt ágætis þróttur hjá kaupendum á eftirspurnarhliðinni. Þannig að ég sé allavega ekkert í kortunum sem bendir til einhvers hruns. En það er greinilegt að það er einhver undiralda þarna og það er fólk sem vill kaupa og ég trúi því að það sé ástand sem muni halda áfram að öðru óbreyttu.“