Forseti Venesúela vill ræða við Bandaríkjamenn

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, er reiðubúinn til að ganga til viðræðna við Bandaríkjamenn um eiturlyfjasmygl, olíu og fólksflutninga milli ríkjanna. Þetta sagði Maduro eftir að fréttamaður spurði forsetann hvort hann gæti staðfest hvort Bandaríkjaher hefði ráðist á höfn í landinu. Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því fyrir fáeinum dögum að Bandaríkin hefðu ráðist á höfn í Venesúela og sagði hana hafa verið nýtta undir eiturlyfjasmygl. Aðgerðir Bandaríkjahers síðustu mánuði sem beinast gegn Venesúela hafa fram að þessu verið á hafi úti. Yfirvöld í Venesúela hafa hvorki staðfest né neitað því að umrædd árás hafi gerst. Þegar Maduro var beðinn um að staðfesta tíðindin sagði hann þetta vera mál „sem við tölum hugsanlega um á næstu dögum.“ Maduro hefur ekki rætt við Bandaríkjaforseta síðan 12. nóvember. Hann segir það samtal hafa verið ágætt en að þróunin síðan þá hafi verið slæm. „Ef Bandaríkjamenn vilja af alvöru ræða samkomulag um að berjast gegn eiturlyfjasmygli þá erum við reiðubúin,“ segir Maduro.