Eldur nærri flugvelli á Grænlandi

Greenland Airports / Creative Commons Eldur kviknaði á föstudagskvöld í byggingu verktakafyrirtækisins Munck Gruppen nærri flugvellinum í Ilulissat á Grænlandi. „Samkvæmt okkar upplýsingum er þetta ekki íbúðabygging sem kviknað er í,“ sagði vaktstjórinn Bent Johnsen við grænlenska fréttamiðilinn Sermitsiaq. „Slökkviliðið í Ilulissat er nú að ráða niðurlögum eldsins og neyðarsveitir flugvallarins hjálpa líka til.“ Johnsen sagði eldinn ekki hafa áhrif á sjálfa flugvallarbygginguna. Orsakir eldsins eru ekki ljósar. Þegar þetta er skrifað má enn sjá eldinn í beinu streymi á YouTube-rás flugvallarins.