Volodymyr Zelenskyj Úkraínuforseti hyggst tilnefna Mykhajlo Fedorov, núverandi aðstoðarforsætisráðherra landsins, í embætti varnarmálaráðherra. Samþykki þingið tilnefninguna tekur Fedorov við af Denys Sjmyhal, sem hefur verið varnarmálaráðherra landsins síðan í júlí. Sjmyhal var áður forsætisráðherra Úkraínu frá 2020 til 2025. Zelenskyj segist ætla að finna honum annað „ekki síður mikilvægt“ hlutverk í ríkisstjórninni. Ef Fedorov tekur við verður hann fjórði varnarmálaráðherra landsins síðan innrás Rússa hófst fyrir tæpum fjórum árum. Zelenskyj boðaði fleiri uppstokkanir á ríkisstjórnarfundi á föstudag. Kyrylo Búdanov, núverandi formaður herleyniþjónustunnar, tekur við sem skrifstofustjóri forsetaembættisins af Andríj Jermak, sem sagði af sér í nóvember vegna spillingarmála. Oleh Ívasjtsjenko, formaður utanríkisleyniþjónustunnar, hleypur í skarðið fyrir Búdanov. Mykhajlo Fedorov er aðeins 34 ára en hann er einn fárra embættismanna sem hafa verið í teymi Zelenskyj síðan hann hóf afskipti af stjórnmálum árið 2019. Hann var stafrænn kosningastjóri í forsetaframboði hans það ár og var kjörinn á þing fyrir flokk hans eftir sigur Zelenskyj í kosningunum. „Mykhajlo er þaulkunnugur málefnum sem tengjast drónalínunni og vinnur mjög skilvirklega við að koma almenningsþjónustum og -ferlum á stafrænt form,“ sagði Zelenskyj. „Ásamt öllum her okkar, herstjórninni, landlægum vopnaframleiðendum og samstarfsaðilum Úkraínu verðum við að koma á breytingum í varnarmálageiranum sem koma að notum.“