Boða atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Suður-Jemens

Umbreytingaráð suðursins (STC), hreyfing aðskilnaðarsinna sem fer með yfirráð í suðurhluta Jemens, hefur boðað að þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Suður-Jemens verði haldin innan tveggja ára. Suður-Jemen var sjálfstætt ríki frá 1967 til 1990. Umbreytingaráðið á sæti í hinni alþjóðlega viðurkenndu ríkisstjórn Jemens og berst með henni gegn Hútí-fylkingunni, sem ræður yfir mestöllum norðurhluta landsins, en sambúðin hefur ekki alltaf verið auðveld. Í desember sótti her Umbreytingaráðsins fram og lagði undir sig mikið landsvæði nálægt landamærum Jemens að Sádi-Arabíu. Sádar brugðust við með því að gera loftárás á hafnarborg undir stjórn ráðsins og kröfðust þess að Sameinuðu arabísku furstadæmin hættu að styðja Umbreytingaráðið. Í sjónvarpsávarpi á föstudag varaði Aidaros Alzubidi, forseti Umbreytingaráðsins, við því að Suður-Jemen myndi lýsa yfir sjálfstæði án tafar ef frekari árásir yrðu gerðar. Nokkrum klukkustundum áður en Umbreytingaráð suðursins tilkynnti að það myndi efna til atkvæðagreiðslunnar hóf jemenski stjórnarherinn gagnsókn til að endurheimta stjórn í Hadramout-héraði, sem ráðið lagði undir sig í desember. Mohammad Abdulmalik, leiðtogi STC í Hadramout-héraði, sagði sjö manns hafa farist í loftárás á búðir í al-Khashaa. Salem al-Khanbashi, héraðsstjóri ríkisstjórnar Jemens í Hadramout, sagði ætlunina vera að endurheimta hernaðaraðstöður í héraðinu „friðsamlega og kerfisbundið“ úr höndum Umbreytingaráðsins. „Aðgerðin er hvorki stríðsyfirlýsing né stigmögnun, heldur varúðarráðstöfun til að tryggja öryggi og koma í veg fyrir glundroða.“ Stjórn Sádi-Arabíu biðlaði á laugardagsmorgun til bæði Umbreytingaráðsins og ríkisstjórnarinnar að funda og finna „sanngjarnar lausnir á málstað suðursins“.