Tesla er ekki lengur söluhæsti rafbílaframleiðandi í heimi. Fyrirtækið birti sölutölur sínar fyrir árið 2025 á föstudag og var þetta annað árið í röð þar sem færri teslur seldust en árið áður. Tesla seldi 1,65 milljónir bifreiða árið 2025, um 620.000 færri en kínverski rafbílaframleiðandinn BYD. Þetta var 9 prósenta lækkun frá árinu 2024, en þá seldi fyrirtækið 1,79 milljónir bifreiða. Sala á teslum dróst jafnframt saman á síðasta ársfjórðungi 2025. Fyrirtækið seldi 418.227 bíla á síðasta ársfjórðungi en framleiddi 434.358 og hafði ráðgert að tæplega 423.000 myndu seljast. Ýmsar ástæður kunna að vera fyrir lækkandi sölutíðni bifreiða frá Teslu. Bandaríkin felldu niður skattaívilnanir fyrir rafknúnar bifreiðar í október. Á sama tíma hefur samkeppni í rafbílaiðnaðinum aukist frá framleiðendum eins og BYD, Volkswagen og BMW. Þá hafa íbúar ýmissa ríkja snúið baki við vörumerki Teslu vegna umdeildra pólitískra afskipta Elons Musk, forstjóra fyrirtækisins. Þrátt fyrir lægri sölutölur bifreiða hækkaði markaðsvirði Teslu um 11,4 prósent á liðnu ári. BYD seldi eina milljón bifreiða utan Kína árið 2025, sem er um 150 prósenta aukning frá árinu 2024. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að selja allt að 1,6 milljónir á þessu ári.