„Við vildum gera þetta svolítið öflugt fyrir íslenska teiknimyndagerð“

Ormhildarsaga er glæný teiknimyndasaga sem verður heimsfrumsýnd á RÚV í dag klukkan 17:31. „Ég byrjaði að skrifa hugmyndirnar að þessu fyrir örugglega meira en 12 árum síðan,“ segir Þórey Mjallhvít, leikstjóri og höfundur myndasögunnar sem kom út árið 2016. „Þá er ég ólétt, nýbúin að eignast barn og var í ritlist í Háskóla Íslands. Ég var að hugsa um sögur og hvað ég ætlaði að skrifa. Ég var líka í bullandi fæðingarþunglyndi, mætti kalla það. Ég fór að hugsa um framtíðina og hvernig hún lítur út, verður hlýnun jarðar?“ Út frá því kemur þessi saga sem er mín tilraun til þess að setja jákvætt spin á það sem allir eru í rauninni að upplifa. Heimurinn er að breytast hratt og tíðarfarið líka.“ Nú hefur verið gerð 26 þátta sería byggð á myndasögunni Ormhildarsögu sem þær Aníta Briem og dóttir hennar Mía Aníta Paraskevopoulos talsetja. Allar þrjár komu í Síðdegisútvarpið á Rás 2. Ótrúlega flink í að túlka með röddinni Mía Aníta Paraskevopoulos er 11 ára og var 9 ára þegar hún byrjaði að talsetja Ormhildi, aðalsöguhetju þáttanna. „Ég hef alltaf viljað vera leikari, mér finnst mjög gaman að leika,“ segir hún. „Þó að mamman sé alltaf að reyna að sannfæra hana um að fara út í bissness eða kannski lögfræði,“ bætir Aníta við. „Þetta var auðvelt en þetta var líka mjög skemmtilegt. Ég gerði líka ensku og íslensku útgáfuna þannig að þetta var eiginlega bara geggjuð upplifun og mér fannst mjög gaman að gera svona.“ Aníta segir dóttur sína ótrúlega flinka að beita röddinni og túlka söguna. „Ég man þegar ég var fyrst að talsetja á hennar aldri. Það tók mig nú svolítið lengri tíma.“ Mía hafi tekið sterkri leikstjórn Þóreyjar mjög vel og náð blæbrigðamuni eins og ekkert væri. „Það er líka skemmtilegt, því hún fæðist í Ameríku og talar ensku eins og innfædd, að geta gert bæði.“ Fólk þarf að finna sniðugar leiðir til að lifa með þjóðsagnaverunum „Sagan fjallar um heimsendaframtíð,“ segir Þórey þótt hún vilji fara varlega með það orð. Í þessum framtíðarheimi hafa jöklarnir hopað og undan þeim skriðið allar þjóðsagnaverurnar úr gömlu bókunum fram í dagsljósið. „Fólk býr þarna á eyjum, til dæmis í Breiðholtsey eða Árbæjarey, og þarf að lifa með það að hafa skoffín í bakgarðinum og nykur að vesenast í tjörninni fyrir utan húsið. Fólk þarf að finna alls konar sniðugar leiðir til að lifa með þeim.“ Þórey segist hafa farið að velta fyrir sér hvað fólk geri undir slíkum kringumstæðum, þegar heimurinn er algjörlega breyttur. „Sumir fara strax í að reyna að berja það niður og aðrir finna leið til að nýta sér þetta og gera eitthvað illt úr þessu.“ Ormhildur er ung stúlka sem starfar í Kukl- og galdrarannsóknarsetri ríkisins. Þau Albert gamli leggja af stað í leiðangur með Guðrúnu og Brynhildi. Þau ætla að fremja galdraseið til að kveða vættirnar aftur inn í jöklana en allt fer á hliðina þegar Albert er tekinn höndum og hópurinn hrapar í fjallinu. Á ferðalaginu uppgötvar Ormhildur að hún býr yfir leyndum hæfileika og kemst að því að töfraverur eru ekki allar þar sem þær eru séðar. „Þau fara í þetta ferðalag til þess að reyna að læsa þær aftur í ísinn en svo vaknar spurningin: Er það rétt?“ Þau þurfa að notast við gamlar þjóðsögur til að leysa hin ýmsu mál. Heiður að vera hluti af þessari einstaklega fallegu sögu Þórey segir ekkert grín að vera í kvikmyndabransanum eins og hún hefur nú fengið að kynnast og „Aníta getur skrifað undir.“ „Þetta er langt ferli. Maður getur gengið með einhverja hugmynd í maganum í tugi ára áður en hún verður að veruleika. Ég tala nú ekki um teiknimyndagerð.“ Aníta segir að það hafi verið stórkostlegt að vera partur af íslenskri teiknimyndaseríu „því við eigum nú ekki margar. Oftast erum við bara með erlent efni sem við talsetjum en það eru nú ekki margir sem hætta sér út í þetta.“ „Enda er þetta alveg ótrúlega langt og strembið ferli. Ég held að okkur mæðgum þyki bara mikill heiður að vera partur af þessari einstaklega fallegu sögu hennar Þóreyjar.“ Skemmtilegt og eðlilegt að stíga inn í heim barnanna Aníta segir heilmikinn mun á því að talsetja teiknimynd og að leika í bíómynd. „Ég legg mjög mikið upp úr því að lesa fyrir börnin mín. Það hefur alltaf verið partur af okkar daglegu rútínu og á kvöldin. Mér finnst það skipta svo miklu, þannig að stíga inn í heim barnanna finnst mér svo skemmtilegt og það er svo eðlilegt fyrir mér.“ „Mér finnst það ofboðslega skemmtilegt. Það er samt svolítið öðruvísi vinna heldur en þegar maður er að setja sig í eitthvað tilfinningalegt hakk, þegar maður er að undirbúa sig fyrir einhverja dramasenu í fullorðinsefni.“ „Við vildum gera þetta svolítið öflugt fyrir íslenska teiknimyndagerð“ Verkefnið er eitt það metnaðarfyllsta í gerð teiknimynda fyrir sjónvarp sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Framleiðslan markar stórt framfaraskref fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað. Þórey telur líklegt að margir á Íslandi skilji ekki almennilega í hverju teiknimyndagerð felst. „Ég veit það bara vegna þess að þegar ég segi hvað ég er að gera þá spyrja allir: Teiknaðir þú þetta?“ „Já, ef ég hefði svona 100 ár af ævinni minni til að gera þetta þá myndi ég kannski ná því. Það eru hundruð manna sem komu að þessu, mikið hér á Íslandi. Við vildum gera þetta svolítið öflugt fyrir íslenska teiknimyndagerð, reyna að fá fólk aftur til landsins og taka þátt í íslensku verkefni því þetta er algjörlega íslenskt.“ Unnið sé með íslenska þjóðsagnaheiminn og íslenska hönnun. Þetta sé íslenskt hugvit frá upphafi til enda. „Þess vegna finnst mér skipta svo miklu máli að hafa Árbæjarey og Breiðholtsey vegna þess að fyrir mér er þetta bara svo ótrúlega lókal saga, segir hún og slær um sig á ensku,“ bætir hún við og hlær. Ormhildarsaga er glæný íslensk teiknimyndasería byggð á samnefndri bók Þóreyjar Mjallhvítar. Fyrsti þátturinn er heimsfrumsýndur á RÚV kl. 17:31 í dag. Mæðgurnar Aníta Briem og Mía segja heiður að fá að taka þátt í svo stórkostlegu verkefni. Ormhildarsaga er á dagskrá RÚV alla laugardaga í seinniparts barnaefninu. Rætt var við Þóreyju Mjallhvíti, Anítu Briem og Míu Anítu í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Viðtalið er í spilaranum hér fyrir ofan.