Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og ritari flokksins, býður sig fram til oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í sveitarstjórnarkosningum 16. maí. Hann er fyrsti þingmaður flokksins sem boðar framboð í sveitarstjórnarkosningunum í vor. „Eftir fjölda áskorana og mikla umhugsun með mínum nánustu hef ég ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ,“ segir í tilkynningu Vilhjálms. Vilhjálmur bjó ásamt fjölskyldu sinni í Grindavík þegar bærinn var rýmdur fyrir rúmum tveimur árum vegna jarðhræringa og eldgoss. Hann er búsettur í Reykjanesbæ í dag. „Þetta er samfélag sem við þekkjum og samfélag sem þekkir okkur. Á þessum erfiðu tímum tóku bæjarbúar utan um fjölskyldu mína. Það var ekki sjálfsagt, en það var mannlegt og það gleymist aldrei,“ segir Vilhjálmur í framboðstilkynningu. Vilhjálmur segir fjölskyldur í Reykjanesbæ standa frammi fyrir raunverulegum áskorunum. „Bið eftir leikskólaplássum er of löng, íþróttagjöld eru orðin þung byrði fyrir mörg heimili og fasteignaskattar hafa hækkað verulega. Uppbygging íbúða þarf að vera fjölbreyttari og taka mið af ólíkum þörfum fólks sem vill byggja sér framtíð hér.“ Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fer fram 31. janúar. Vilhjálmur boðar til opins fundar með bæjarbúum á Hótel Keflavík miðvikudaginn 7. janúar klukkan 19:30.