Nýrri rennibraut í sundlaug Þorlákshafnar, sem nefnis Drekinn, hefur verið lokað tímabundið vegna óhappa í rennibrautinni. Rúm vika er síðan rennibrautin var tekin í notkun. „Unnið er að ítarlegri rannsókn á orsökum atvikanna og verður brautin ekki opnuð á ný fyrr en fullvíst er að hún uppfylli allar öryggiskröfur,“ segir í tilkynningu sveitarfélagsins Ölfuss. „Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og þökkum gestum fyrir skilning og þolinmæði.“ Rennibrautin samanstendur af tveimur brautum og er svokölluð þvottavél í þeirri stærri. Rennibrautin kostaði 150 milljónir króna. Nokkur óhöpp hafa orðið í rennibrautinni frá því hún var tekin í notkun. Í umræðu í Facebook-hópi íbúa í Þorlákshöfn og Ölfusi er vakin athygli á slysunum. Þar kemur meðal annars fram að börn hafi meitt sig í hálsi, höfði og baki eftir ferð í rennibrautinni.