Um það bil sjö hektarar af sinu brunnu við Djúpavog í gærkvöld. Eldurinn kviknaði út frá flugeldum en ógnaði ekki byggð nema að litlu leyti í upphafi að sögn varðstjóra. Slökkviliðið á Djúpavogi var kallað út klukkan hálftíu í gærkvöld vegna sinuelds í útjaðri bæjarins að austanverðu. Kári Snær Valtingojer er varðstjóri slökkviliðsins á Djúpavogi. „Það var tilkynnt um að það væri lítill eldur en það var talsverður vindur þannig að þetta breiddist hratt út. Þetta hafa verið svona sjö hektarar sem brunnu og við vorum 10 slökkviliðsmenn þarna og 10 aðstoðarmenn að berjast við þetta í svona þrjá klukkutíma.“ Eldurinn breiddist hratt um þurran mosa og sinu við Hammersminnni og leitaði í suðaustur, framhjá leikskóla og íbúðabyggð. „Þetta ógnaði ekki byggð þannig, kannski aðeins í upphafi var örlítil hætta sem við náðum nú strax að afstýra,“ segir Kári Snær. Er eitthvað vitað um upptök eldsins? „Já, það er alveg ljóst að þetta er eftir skottertur. Þær eru stærsta hættan hérna hjá okkur og fallhlífaraketturnar. Við höfum náttúrulega áhyggjur af þessum sinu- og gróðurledum. Þetta er að verða stærrra vandamál eftir að menn hættu að brenna sinu á vorin,“ segir Kári Snær.