Landsnet vill tengja ónotaðan rafstreng í Dýrafjarðargöngum við Breiðdalslínu 1 til að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Strengurinn átti að verða hluti af tvöföldun Breiðadalslínu en þeirri framkvæmd seinkar. „Það var ákveðið á sínum tíma þegar göngin voru gerð að nýta tækifærið og leggja streng í göngin,“ segir Einar S. Snorrason, forstöðumaður skrifstofu forstjóra Landsnets. Dýrafjarðargöng voru opnuð 2019. Þá stóð til að reisa nýja línu samhliða núverandi línu til að auka afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Einar segir þróun í virkjanamálum á Vestfjörðum hafa spilað inn í þegar sú ákvörðun var tekin að færa aðra línu, Mjólkárlínu 3 milli Kollafjarðar og Mjólkár, fram fyrir Breiðadalslínu II. Einar segir seinkun framkvæmdarinnar tilkomna eftir heildarmat á orkuöryggi Vestfjarða. Eftir situr ónotaði strengurinn í Dýrafjarðargöngum. Landsnet skoðar nú að tengja strenginn við gömlu línuna, Breiðadalslínu 1. Öruggara er að nota strenginn í göngunum frekar en þann sem liggur yfir fjallið. „Óveðrin eru alltaf mest uppi á fjallinu þannig að ef þú tekur þar út bút þá tekurðu allar truflanir sem þar verða úr umferð,“ útskýrir Einar. Breiðadalslínu leysti til að mynda út um miðjan desember og fyrri part nóvember í ísingaveðri. Til þess að tengja rafstrenginn við gömlu línuna þarf þó að leggja sex kílómetra loftlínu til viðbótar. Landsnet hefur sent inn erindi til Skipulagsstofnunar til að athuga hvort sú tenging þarf að fara í umhverfismat. Svarið kemur til með að hafa áhrif á hversu langt verður þar til hægt verður að tengja línuna.