Það er alltaf vandi að spá fyrir um hvað nýtt ár ber í skauti sér. Eitt er þó alveg víst að kvikmyndaunnendur geta byrjað að láta sig hlakka til fyrir nýju ári því von er á fjölmörgum spennandi myndum í bíó. Segja má að síðasta stóra kvikmyndaárið hafi verið 2023 þegar kvikmyndirnar Barbie og Oppenheimer trylltu lýðinn og drógu unga sem aldna í bíó. Margir spyrja sig hvort nýjasta kvikmynd Christophers Nolans, Odyssey, geti endurtekið leikinn með einni eða tveimur myndum í ár. Beðið er eftir kvikmyndum á borð við fjórðu Spider-Man-myndina með Tom Holland í aðalhlutverki, The Devil Wears Prada 2 sem er framhald af hinni goðsagnarmynd með Anne Hathaway og Merylin Streep og þriðju Dune-myndinni. Einnig má nefna kvikmynd sem nú þegar er orðuð við Óskarsverðlaunin og byggir á samnefndri skáldsögu, Hamnet, og sannsögulegri sögu um Ann Lee sem talin var vera kvenkyns Kristur. Ný útfærsla á Wuthering Heights er einnig væntanleg og er sú kvikmynd þegar orðin umdeild fyrir listræna túlkun á sögunni. Hamnet Sem fyrr segir byggir kvikmyndin Hamnet á hinni margverðlaunuðu skáldsögu eftir Maggie O’Farrell sem segir frá sambandi leikskáldsins William Shakespeare, sem Paul Mescal túlkar, og eiginkonu hans Agnesar, sem Jessie Buckley leikur. Sagt er frá harmleiknum sem verður til þess að Shakespeare skrifar eitt sitt frægasta leikverk, Hamlet, eftir dauða sonar síns, Hamlet. Væntanleg í janúar. Is This Thing On? Hér höfum við þriðju kvikmyndina í leikstjórn Bradley Cooper en fyrri myndir hans eru A Star Is Born og Maestro. Í þetta sinn byggir hann söguna lauslega á ferli breska grínistans John Bishop. Sagt er frá manni á miðjum aldri sem er á barmi skilnaðar. Þegar hann prófar óvænt uppistand kemst hann að því að hann er lunkinn við að fá aðra til að hlæja. Á meðan hann reynir fyrir sér á nýjum vettvangi horfist eiginkona hans í augu við allar þær fórnir sem hún hefur fært fyrir fjölskylduna. Væntanleg í janúar. Wuthering Heights Þessi nýja útfærsla á klassísku sögunni Wuthering Heights hefur nú þegar vakið heilmikla athygli og er umtöluð vegna leikaravals, búningahönnunar og útlits. Í kítlum fyrir myndina má sjá heilmikla ástríðu og þrá milli leikaranna Jacob Elordi, sem fer með hlutverk Heathcliff, og Margot Robbie, sem leikur Cathy. Það er Emerald Fennell sem leikstýrir en þar á undan leikstýrði hún Saltburn sem einnig vakti mikla athygli. Væntanleg í febrúar. The Testament of Ann Lee Hér fer stórleikkonan Amanda Seyfried með hlutverk Ann Lee sem var ein stofnenda shaker-trúarinnar á 18. öld. Fylgjendur hennar töldu hana vera Krist í kvenmannslíki og talaði hún fyrir jafnrétti kynjanna. Áhorfendur fylgjast með því hvernig hún yfirgefur kvekarasöfnuðinn, flytur yfir til Bandaríkjanna og stofnar þar shaker-söfnuðinn og safnar sér hundruðum fylgjenda. Myndin byggir á sönnum atburðum og er í leikstjórn Monu Fastvold. Væntanleg í febrúar. The Devil Wears Prada 2 Ein af umtöluðustu kvikmyndum næsta árs er framhald af hinni ástsælu kvikmynd frá 2006 þar sem Anne Hathaway og Meryl Streep fönguðu hjörtu áhorfenda sem ritstjórinn harði og grunlausi aðstoðarmaðurinn. Nú tuttugu árum síðar snúa þær aftur í Prada-skóna. Fátt er vitað um söguþráð myndarinnar en eitt er víst að þau Emily Blunt og Stanley Tucci, sem áttu stórleik í fyrri myndinni, verða með í för. Væntanleg í maí. Disclosure Day Nýjasta verkefni Steven Spielbergs er leyndarmálum þakið. Stiklan gefur lítið til kynna en þó má draga þá ályktun að einhvers konar ójarðneskir gestir láti á sér kræla. Með aðalhlutverk fara Josh O’Connor, Emily Blunt og Eve Hewson. Væntanleg í júní. Odyssey Ein stærsta kvikmynd ársins er líklega túlkun Óskarsverðlaunaleikstjórans Christophers Nolans á Ódysseifskviðu Hómers sem skartar Matt Damon í aðalhlutverki. Tom Holland, Anne Hathaway, Robert Pattinson, Lupita Nyong’o og Zendaya deila hvíta tjaldinu með honum svo fáir séu nefndir. Talið er að framleiðslan hafi kostað um 250 milljónir bandaríkjadala, eða rúma 36 milljarða króna, og er því dýrasta kvikmynd leikstjórans til þessa. Myndin hefur þó fengið gagnrýni fyrir að brynjur Grikkjanna til forna minni heldur mikið á rómverskan herklæðnað. Væntanleg í júlí. Hunger Games: Sunrise on the Reaping Aðdáendur Hungurleikjanna hafa beðið með mikilli eftirvæntingu eftir sögu Haymitch, leiðbeinanda þeirra Katniss og Peeta, sem fangaði hug lesenda og áhorfenda með sótsvörtum húmor og gæsku. Í þessari kvikmynd fá áhorfendur loks að sjá hvernig fór fyrir í hans eigin leikum 25 árum áður en fyrsta kvikmyndin á sér stað. Sögur herma að bæði Jennifer Lawrance og Josh Hutcherson, sem fóru með aðalhlutverkin í þríleiknum dáða, bregði fyrir á skjánum. Væntanleg í nóvember. Focker-in-law Hér er á ferð fjórða myndin um Focker-fjölskylduna en sú fyrsta Meet The Parents sló rækilega í gegn á sínum tíma með Ben Stiller og Robert De Niro í aðalhlutverki. Í þetta sinn snúa Teri Polo, Blythe Danner og Owen Wilson til baka en með þeim í lið hefur bæst poppstjarnan Ariana Grande sem fór með stórleik í Wicked-myndunum. Væntanleg í nóvember. Dune: Part Three Lokahnykkurinn í þríleik leikstjórans Denis Villeneuves er væntanlegur í desember og slæst nú Robert Pattison í úrvalslið leikara kvikmyndarinnar sem skartar Timothée Chalamet og Zendayu í aðalhlutverkum. Dune-myndirnar hafa notið gríðarlegrar velgengni og er því spenningurinn strax orðinn mikill fyrir síðustu myndinni. Næsta verkefni leikstjórans er svo nýjasta James Bond-myndin sem enn er verið að ákveða hver gæti farið fyrir. Væntanleg í desember. Aðrar eftirtektarmyndir sem eru væntanlegar á árinu eru The Superio Mario Galaxy Movie sem fylgir eftir hinni 30 ára gömlu leiknu kvikmynd Super Mario Bros. sem trekkti ekki vel að í kvikmyndahúsum á sínum tíma. Star Wars: The Mandalorian and Grogu er væntanleg í maí og er fyrsta Star Wars-myndin frá árinu 2019. Þættirnir The Mandalorian hafa notið velgengni og því vonast framleiðendur til þess að kvikmyndin geri slíkt hið sama. Toy Story 5 er einnig væntanleg en Pixar hefur ekki verið að slá aðkomumet undanfarin ár með kvikmyndum sínum en vonast til að geta snúið við blaðinu með endurkomu Tom Hanks sem Vidda og Tim Allen sem Bósa Ljósár. Eins ætlar Disney að reyna að endurleika velgengni Moana-kvikmyndanna með nýrri leikinni útgáfu í júlí en báðar teiknimyndirnar fóru sigurför um heiminn á sínum tíma. Fjórða Spider-Man-myndin er væntanleg í júlí. Í fyrri myndinni lét galdrakarlinn Dr. Strange heiminn gleyma tilvist Peter Parker og hliðarsjálfi hans Spider-Man. Talið er því að í þessari nýju mynd verði einmanaleiki og ný tilvera hans könnuð. Eins er von á næstu Avengers-myndinni úr smiðju Marvel þar sem persóna Roberts Downey Juniors snýr aftur sem illmennið Doctor Doom. Það er því til mikils að hlakka fyrir kvikmyndaunnendur á nýju ári.