„Hvað er besta leiðin til að breyta þessari stöðu?“

Dylan Herrera alþjóðastjórnmálafræðingur og doktorsnemi segir Venezuelabúa vilja frið og alvöru lýðræði. Bandaríkjaher gerði loftárásir á Venesúela í morgun og handsamaði forseta landsins, Nicolas Maduro og eiginkonu hans, og flutti þau úr landi. „Ég held að Venezúelabúar vilji vera í friði. Það er ekki til með þessa ríkis[stjórn]. Það er ekki til með Bandaríkin og innrásina. Ég held að nú sé tími til að hugsa - hvað er besta leiðin til að breyta þessari stöðu?“ segir Dylan. „Ég held að við þurfum að spyrja okkur núna að hvert er markmiðið með þessari ógn, hvað er markmiðið fyrir Bandaríkin? Vilja Bandaríkin taka Maduro og senda hann í fangelsi fyrir fíkniefnamál?“ spyr Dylan og veltir því upp hvort tilgangurinn geti verið raunverulega að Bandaríkjastjórn vilji hafa áhrif á nýja stjórn í Venezuela. „Það gæti verið, því þú ert með mikil áhrif á Venezúela með olíu og annað sem er þar,“ segir hann. Dylan segir að foringjar hersins hafi jafnvel meiri völd í Venezúela en forsetinn, sem hefur verið handtekinn. „Þú ert ekki með forseta, þú átt varaforseta samt, þú átt ráðherra samt sem eru þar enn þá, þú átt hermenn sem eru þar enn þá og þeir eru fólk sem er í alvöru með völd í Venezúela. Svarið þeirra er það sem er mikilvægt núna,“ segir Dylan. Segja má að Rómanska Ameríka sé í bakgarði Bandaríkjanna. Dylan segir að Trump hafi með skrifum sínum reynt að beita áhrifum sínum vegna kosninga þar nýlega. Á þessu ári eru kosningar í Brasilíu og Kólumbíu. „Það er skýrt að hann vilji hafa áhrif á Rómönsku Ameríku og sér þau sem óríkislönd fyrir honum. Spurningin er: er það opin hurð til að gera hvað sem er?“