Skuldabréfamarkaður hér á landi er stærri en hlutabréfamarkaður. Að auki hefur ávöxtun fyrirtækjaskuldabréfa verið almennt hærri en hlutabréfamarkaðar. Því hefur frekar borgað sig að lána fyrirtæki en að slást í eigendahópinn. Snorri Jakobsson, hagfræðingur og greinandi hjá Jakobsson Capital, segir Ísland of háð skammtímafjármögnun. Skortur á innviðauppbyggingu og ónæg fjárfesting í nýsköpun sé því ekki tilviljun. „60% fjármögnunar í íslenskum krónum er til skamms tíma. Það hefur afleiðingar. Það þýðir það að 60% af skuldum í íslenskum krónum er á gjalddaga á næstu 12 mánuðum. Það hefur afleiðingar vegna þess að við reiðum okkur mikið á bankafjármögnun. Bankafjármögnun hentar til dæmis mjög illa fyrir nýsköpun. Þetta er ekki gott og ekki í samræmi við það sem við hefðum átt að læra af bankahruninu.“ Eigið fé íslenskra viðskiptabanka sé um tvöfalt hærra en í nágrannalöndum okkar. „Útlán, sem eru dýr til nýsköpunar, þau eru helmingi dýrari í íslenska bankakerfinu. Þess vegna eru nýsköpunarfyrirtæki að reiða sig mikið á hlutabréfamarkaðinn á Íslandi sem er því miður ekki alveg nógu sterkur og burðugur.“ Snorri segir að 80% skuldabréfamarkaðar sé í eigu lífeyrissjóðanna. Nokkurs konar einokun lífeyrissjóða á skuldabréfamarkaði sé ekki heppileg. Löggjafinn takmarki mjög fjárfestingu almennings á skuldabréfamarkaði. „Sundabraut hefur verið á teikniborðinu í 40 ár í Reykjavík og margir Reykvíkingar myndu eflaust vilja geta fjármagnað þá framkvæmd gegn greiðslu vaxta. Kristján VII árið 1795 bauð þegnum sínu að kaupa sértryggð skuldabréf. Svo að löggjafinn nú gerir ráð fyrir að fjármálalæsi nú sé lakara en árið 1795 á Íslandi. Forræðishyggja og miðstýring er of mikil í kerfinu.“