Drekanum lokað í Þorlákshöfn

Stigahúsið upp í rennibrautina, sem nefnist Drekinn, er tólf metra hátt og kostnaður við hana nam um hundrað og fimmtíu milljónum. Rennibrautin var opnuð 20. desember. Í Facebook-hópi íbúa Þorlákshafnar og í Ölfusi hafa skapast umræður vegna fjölda slysa sem hafa orðið í rennibrautinni. Íbúar lýsa meðal annars meiðslum í baki og mögulegum heilahristingi. Í rennibrautinni taka sundgestir nokkrar beygjur áður en þeir koma inn í keilu þar sem farið er í nokkra hringi áður en ferðinni lýkur með því að sturtast niður um endaop. Keilan er hallandi svo að gestir fái meiri upplifun af hringsnúningnum inni í henni. Rennibrautinni hefur verið lokað og hollenskir framleiðendur hennar skoða mögulegar ástæður slysanna.