Ali Khamenei æðstiklerkur Írans lét þau orð falla á laugardag að harkalega yrði tekið á „óeirðaseggjum“ í landinu. Að minnsta kosti tíu manns hafa þegar verið drepnir í fjöldamótmælum gegn írönskum stjórnvöldum síðustu vikuna. Khamenei tjáði sig í fyrsta sinn um mótmælin í ávarpi til áheyrendahóps í Teheran sem sýnt var í ríkissjónvarpinu á laugardag. Í ávarpinu gerði Khamenei greinarmun á fólki sem hefði fjölmennt út á götur til að mótmæla hruni íranska ríalsins og á „óeirðaseggjum“. „Við tölum við mótmælendur, embættismenn verða að tala við þá. En það er enginn tilgangur í að tala við óeirðaseggi. Óeirðaseggi verður að knésetja.“ Khamenei fullyrti jafnframt, án þess að færa fram sérstök gögn því til stuðnings, að erlendir andstæðingar Írans ættu þátt í að egna til mótmælanna. „Fjöldi fólks sem óvinurinn hefur egnt eða ráðið er að fylkja sér að baki kaupmanna og verslunareigenda og kyrja slagorð gegn íslam, Íran og íslamska lýðveldinu. Þetta er það sem skiptir höfuðmáli.“ Bandaríkjastjórn hefur hótað því að skerast í leikinn ef íranska stjórnin drepur mótmælendur. Masoud Pezeshkian forseti Írans brást við ummælum Bandaríkjamanna í ræðu á laugardaginn og sagði tvískinnung að þeir segðu Írönum að meiða ekki neinn á meðan „þeir kasta blygðunarlaust sprengjum á konur og börn og fremja þjóðarmorð“.