Samstöðu- og þróunarflokkurinn (USDP), stjórnmálaflokkur sem nýtur stuðnings mjanmarska hersins, er með afgerandi forystu í fyrstu opinberu tölum sem birtar hafa verið í fyrsta áfanga þingkosninga í Mjanmar. Flokkurinn hefur unnið 90 prósent þingsætanna sem búið er að úthluta. Þingkosningar fóru síðast fram í Mjanmar árið 2020, en þá vann Lýðræðisfylkingin (NLD), flokkur Nóbelsverðlaunahafans Aung San Suu Kyi, afgerandi sigur á móti Samstöðu- og þróunarflokknum. Herinn neitaði hins vegar að viðurkenna niðurstöðu kosninganna og lét fangelsa Aung San Suu Kyi, sem hafði farið með völd í Mjanmar frá árinu 2016. Herforingjastjórn hefur síðan þá farið með stjórn í landinu og hefur átt í vök að verjast vegna uppreisnarhreyfinga sem hafa lagt undir sig stóra hluta Mjanmar. Herinn hefur snúið vörn í sókn gegn uppreisnarmönnum síðasta árið með aðstoð Kínverja. Erindrekar frá vestrænum ríkjum hafa fordæmt framkvæmd þingkosninganna og vænt herinn um að nota þær til að festa herforingjastjórnina í sessi. Lýðræðisfylking Aung San Suu Kyi, sem er enn í fangelsi, fékk ekki að bjóða fram í kosningunum. Ætlunin er að kosningarnar fari fram í þremur áföngum og verða hinir næstu 11. og 25. janúar. Í fyrsta áfanganum hefur Samstöðu- og þróunarflokkurinn unnið 87 af 96 þingsætum. Sex stjórnmálaflokkar þjóðernisminnihlutahópa hafa unnið níu sæti. Stjórnin segir kjörsókn nema um fimmtíu prósentum, sem er tuttugu prósentum minna en árið 2020.