Tveir fluttir með þyrlu og einn með sjúkrabíl eftir bílslys í Dalabyggð

Þrír karlmenn á þrítugsaldri voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík eftir að ökumaður missti stjórn á bíl sínum í Dalabyggð í nótt. Bíllinn valt og endaði á hvolfi. Þetta staðfestir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi. Hann segir mildi að ekki fór verr. Þremenningarnir héldu af stað fótgangandi til byggða eftir veltuna en fundust á leiðinni. Ásmundur segir þá hafa verið á Vesturlandsvegi á leið í Búðardal. Tveir mannanna voru fluttir með þyrlu til Reykjavíkur og sá þriðji með sjúkrabíl. Ásmundur segir þá alla hafa verið með meðvitund og líðan eftir atvikum góða. Lögreglan á Vesturlandi rannsakar tildrög slyssins með aðstoð tæknideildar í Reykjavík. Fann bróður sinn með snjallforriti Aðstandandi eins mannanna segir þá hafa verið á rúntinum um tvöleytið í nótt þegar bíllinn fór út af vegi. Mennirnir hafi verið vankaðir og slasaðir eftir bílveltuna og muni lítið frá slysinu. Þeir hafi ekki getað fundið síma sína og því reynt að ganga til byggða í kolniðamyrkri. Aðstandandinn segir mennina hafa verið á gangi í nokkurn tíma þegar systir eins fann þá. Hún hafði farið að leita að bróður sínum eftir að hafa fengið skilaboð og staðsetningu slyssins í gegnum öryggisforritið Life360, sem bæði hún og bróðir hennar eru með. Forritið sendir skilaboð í síma ættingja ef sími annars nemur hnjask eða annað óvenjulegt.