Hvalfjarðarsveit hafnaði í lok nóvember tillögu bæjarstjórnar Akraness um að kanna fýsileika sameiningar sveitarfélaganna tveggja. Í framhaldinu lýsti Akranesbær því yfir að tilefni væri til að endurskoða þjónustusamninga sveitarfélagsins, með vísun í væntanlegar breytingar á sveitarstjórnarlögum. Umræðan leggst misvel í íbúa Tímasetningu þeirrar umræðu segir sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, Linda Björk Pálsdóttir, hafa komið nokkuð á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að vísað er til væntanlegra breytinga á sveitarstjórnarlögum sem ekki hafa verið staðfestar enn. „Við sjáum bara hverju fram vindur, tökum samtalið og náum vonandi saman með hagsmuni beggja sveitarfélaga að leiðarljósi.“ Hefur þessi umræða einhver áhrif á sameiningarvilja ykkar megin? „Hún hefur kannski mælst svona misvel fyrir í sveitarfélaginu þó að það sé náttúrulega alveg óljóst hvaða áhrif það hafi til framtíðar. Okkar sýn er svo sem að það er engin ástæða til að blanda þessum tveimur málefnum saman.“ Hún segir helstu samstarfssamninga milli sveitarfélaganna vera nokkuð nýlega, til að mynda um slökkvilið og tónlistarskóla sem eru frá 2019 og 2021. Hugsanlegur samningur um bókasafn sé á dagskrá næsta fundar í byrjun nýs árs. „Boðaðar breytingar Akraneskaupstaðar eru frá 2026, þannig að við hefðum gjarnan viljað fá rýmri tímaramma.“