Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tjáði sig um málefni Grænlands á Facebook-síðu sinni í kvöld. „Grænland er hluti af danska konungsríkinu,“ skrifaði Kristrún og lét fylgja með enska þýðingu. „Ekkert um Grænland án Grænlands. Ísland stendur þétt með vinum sínum.“ Kristrún nefndi ekki Bandaríkin eða Donald Trump Bandaríkjaforseta í færslunni en leiða má líkur að því að tilefni hennar séu ítrekaðar yfirlýsingar Trumps um að nauðsynlegt sé að Bandaríkin innlimi Grænland. Áhyggjur af því að Bandaríkin kunni að beita valdi til að eigna sér Grænland hafa aukist í kjölfar nýlegra árása Bandaríkjamanna á Venesúela, þar sem bandarískir hermenn námu Nicolás Maduro forseta á brott og fluttu hann til New York. Trump lýsti því yfir í kjölfar árásanna að Bandaríkin hygðust fara með stjórn í landinu. Í kjölfar árásanna birti eiginkona eins helsta ráðgjafa Trumps færslu á samfélagsmiðlum með bandarískum fána yfir korti af Grænlandi og orðinu „BRÁÐUM!“. Bæði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og Jens-Frederik Nielsen landstjórnarformaður Grænlands tjáðu sig um ásælni Bandaríkjamanna gagnvart Grænlandi fyrr sama dag og Kristrún birti færsluna. „Ég neyðist til að segja þetta hreint út við Bandaríkin,“ sagði Frederiksen í opinberri yfirlýsingu . „Það þýðir alls ekki neitt að tala um að nauðsynlegt sé fyrir Bandaríkin að taka yfir Grænland. Bandaríkin eiga engan rétt á að innlima neitt af ríkjunum þremur í samveldinu.“ „Konungsríkið Danmörk - og þar með Grænland - er aðili að NATO og er því aðnjótandi öryggistrygginga bandalagsins. VIð höfum þegar í dag varnarsamning á milli konungsríkisins og Bandaríkjanna, sem veitir Bandaríkjunum víðtækan aðgang að Grænlandi. Og af hálfu konungsríkisins höfum við fjárfest gríðarmikið í öryggismálum á norðurslóðum.“ „Ég hvet þess vegna Bandaríkin eindregið til að hætta hótunum sínum gegn sögulega nánum bandamanni og gegn öðru landi og annarri þjóð sem hefur tekið skýrt fram að þau eru ekki til sölu.“ Jens-Frederik Nielsen var enn harðorðari í yfirlýsingu sem hann birti á Facebook í kvöld. Í færslu sinni sagði Nielsen orðræðu Bandaríkjamanna „algjörlega óásættanlega“. „Þegar Bandaríkjaforseti talar um að „við þörfnumst Grænlands“ og spyrðir okkur saman við Venesúela og hernaðarinngrip er það ekki bara rangt,“ skrifaði Nielsen. „Það er virðingarleysi.“ „Landið okkar er ekki peð í valdatafli stórveldanna,“ skrifaði hann. „Við erum þjóð. Land. Lýðræði. Þetta ber mönnum að virða. Sérstaklega nánum og tryggum vinum.“ Líkt og Frederiksen áréttaði Nielsen að Grænland væri innan Atlantshafsbandalagsins og bætti við að Grænlendingar gerðu sér vel grein fyrir hernaðarlega mikilvægri staðsetningu sinni. Aftur á móti sagði hann bandalög byggjast á tillitssemi og virðingu. „Nú er nóg komið,“ skrifaði Nielsen. „Ekki meiri þrýsting. Ekki fleiri aðdróttanir. Ekki fleiri draumóra um innlimun. Við erum opin fyrir viðræðum. En þær verða að fara fram eftir réttum leiðum og af virðingu við þjóðarétt. Og réttu leiðarnir eru ekki geðþóttakenndar og virðingarlausar færslur á samfélagsmiðlum.“ „Grænland er heimili okkar og landsvæði okkar. Og þannig verður það áfram.“