Eva Schloss, stjúpsystir Önnu Frank, lést á laugardaginn, 96 ára gömul. Eva Schloss (þá Eva Geiringer) kynntist Önnu Frank þegar fjölskyldur þeirra bjuggu í sömu götu í Amsterdam eftir valdatöku nasista í Þýskalandi. Líkt og Frank-fjölskyldan fór fjölskylda Evu í felur eftir að Þjóðverjar lögðu Holland undir sig en var svikin og send í Auschwitz-útrýmingarbúðirnar. Eva missti föður sinn og bróður í helförinni en þær móðir hennar lifðu af. Móðir Evu, Elfriede, giftist Otto Frank, föður Önnu, eftir stríðslok og þær Anna urðu því stjúpsystur eftir að Anna var látin. Eva Schloss flutti síðar til Bretlands og stofnaði þar Minningarsjóð Önnu Frank. Kamilla Bretadrottning er meðal verndara sjóðsins. „Við eiginkona mín erum afar döpur yfir því að heyra af andláti Evu Schloss,“ sagði Karl III. Bretakonungur í færslu á samfélagsmiðlum. „Ómögulegt er að skilja hryllinginn sem hún upplifði sem ung kona og þó helgaði hún það sem hún átti eftir ólifað því í að vinna bug á hatri og fordómum, efla góðvild, hugdirfsku, tillitssemi og seiglu með óþrjótandi starfi sínu fyrir Minningarsjóð Önnu Frank í Bretlandi og fyrir fræðslu um helförina um allan heim.“