Himnasending að utan? Í hópi þeirra bestu í heiminum í íþrótt sem enginn stundar

Ísland hefur eignast keppanda í sundfimi. Íþróttina stundar nánast enginn á landinu en hin japansk-íslenska Andrea Elíasson er framarlega á heimsvísu. Íslendingar gætu þekkt íþróttina frá Ólympíuleikum þegar þeir sjá hóp kvenna sýna samhæfðar æfingar. Andrea ákvað nýverið að keppa í einstaklingsflokki fyrir Ísland og gæti því verið að við sjáum hana á Ólympíuleikum í framtíðinni - ef allt gengur upp. En hvernig kom þetta til? Andrea á íslenskan föður og japanska móður og hefur verið búsett í Bretlandi alla sína tíð. Hún var í yngri landsliðum Breta og hefur náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum. „Listrænu sundi má kannski líkja við að dansa í vatni og fara í gegnum æfingar undir tónlist.“ Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson hitti Andreu í Laugardalslaug. Myndefnið tók Kristinn Gauti Gunnarsson. Viðtal og æfingar Andreu má sjá hér að neðan. Hin japansk-íslenska Andrea Elíasson er meðal þeirra fremstu í heimi í sundfimi í sínum aldursflokki. Hún ákvað nýlega að keppa fyrir Íslands hönd. Íþróttin er lítt stunduð hér á landi og er því ákvörðun Andreu afar kærkomin. Hvað er svona erfitt við þessa íþrótt? Íþróttin er afar erfið þar sem keppendur þurfa að halda í sér andanum á meðan þeir berjast við að halda sér í vatninu. Á sama tíma sýna þeir æfingar með löppum. Þegar staðan er upprétt þarf svo að troða marvaða. „Það erfiðasta er að halda sér undir vatninu meðan á æfingu stendur. Þá er maður með lappirnar uppi. Það finnst mér erfiðast því maður þarf að halda í sér andanum en fara samt í gegnum öll æfingaratriðin.“ „Ég held hún sé í hópi þeirra bestu, hvort hún sé í topp þremur á öllum þessum stærstu mótum skal ég ekki fullyrða neitt. Austur-Evrópa hefur verið mjög sterk í þessari íþrótt. Ég held að Andrea standi mjög vel.“ - Elías Ólafsson. Andrea er í dag þrettán ára en hefur stundað íþróttina lengi. „Ég hef iðkað íþróttina frá því að ég var sex ára, þannig að ég hef verið að í sjö ár.“ Hægt er að keppa í fullorðinsflokki frá 15 ára aldri. Hvað segir afi? Eins og fimleikar? Elías Ólafsson er föðurafi Andreu. Hann útskýrði baksöguna og ræddi íþróttina. „Sonur minn Ólafur flutti til London og er giftur japanskri konu. Þannig á ég tvö barnabörn og bæði eru í London. Andrea er ein þeirra.“ „Þetta hefur verið mjög athyglisvert því maður hefur ekki þekkt þessa íþrótt nema frá myndum frá Ólympíuleikunum. Þetta hefur verið öðruvísi en margar aðrar íþróttir. Þetta er kannski líkt fimleikum.“ Líkindin milli fimleika og sundfimi eru ekki svo fjarri lagi. Sundsambandið hefur til að mynda leitast eftir samstarfi við Fimleikasamband Íslands til að koma á sundfimi hér á landi. Leitast er eftir því að efla starf í dýfingum og sundfimi í langtímastefnu Sundsambandsins. Mega bara konur keppa í sundfimi? Íþróttin hefur lengst af nær eingöngu verið stunduð af konum í alþjóðlegri keppni. Árið 2015 fengu karlar keppnisrétt á HM. Fyrir Ólympíuleikana 2024 varð hins vegar stór breyting á er karlar fengu keppnisrétt. Keppt er bæði í liða- og einstaklingskeppni. Hins vegar var enginn karl valinn fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Alls fóru 96 keppendur á leikana frá 18 löndum en það voru allt konur. Þetta gæti þó breyst í framtíðinni eftir reglubreytinguna. Ákváð nýlega að keppa fyrir Ísland Andrea var í breska ungmennalandsliðinu en ákvað nýlega að keppa fyrir hönd Íslands. Hún keppti á sínu fyrsta alþjóðlegu móti fyrir Ísland í desmeber og var nálægt palli á bikarmóti í Ungverjalandi. „Mér gekk mjög vel á mótinu. Ég var í fjórða sæti í báðum mínum greinum.“ Þrátt fyrir ungan aldur stefnir hún hátt og ætlar sér á heimsmeistara- og Evrópumeistaramót fyrir Ísland á næstu misserum. Árið 2024 keppti hún fyrir Bretland á Evrópumóti ungmenna og komst í úrslit í einstaklingsflokki. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að keppa sem lið hér á landi eins og er, en sú staða gæti breyst. Hvernig kom þetta til? „Ekta íslenskur þátttakandi“ Andrea hafði frumkvæði að því að keppa fyrir Íslands hönd og sundsambandið tók því fagnandi, skiljanlega. „Það kom þannig til að hún var í breska liðinu en síðan þótti henni meira spennandi að vera fyrir Ísland. Ingibjörg hjá Sundsambandinu hafði áhuga á því. Hún keppti fyrir Ísland núna í Ungverjalandi og stóð sig mjög vel. Hún stillti sér upp fyrir framan íslenska fánann sem var áberandi á mótinu. Þannig var hún ekta íslenskur þátttakandi, meðal 16 þjóða og margra keppenda,“ sagði Ólafur. Það skyldi þó aldrei vera að Ísland verði með keppenda á alþjóðlegum mótum í sundfimi í framtíðinni?