Bresk stjórnvöld vonast til að draga stórlega úr skyndibitaáti barna og ungmenna með víðtæku auglýsingabanni sem tekur gildi í dag. Um leið fá sveitarstjórnir heimildir til að koma í veg fyrir að söluvögnum með skyndibita verði komið upp við skóla. Markmiðið er að sporna gegn því að börn borði fitu-, salt- og sykurríkan mat. Stjórnvöld vonast til að draga úr slíkri neyslu sem nemur 7,2 milljörðum kaloría á ári í matarneyslu breskra barna. Bannað verður að auglýsa skyndifæði fyrir klukkan níu á kvöldin í bresku sjónvarpi. Alfarið verður bannað að birta slíkar auglýsingar á breskum vefsíðum. Með því vonast Bretar til að börnum sem glíma við offitu fækki um 20 þúsund. Samkvæmt opinberri tölfræði eru 22 prósent barna í yfirþyngd þegar þau hefja skólagöngu sína fimm ára gömul.