Kanna skemmdir á sæstreng í Eystrasalti

Sérfræðingar í Litáen hafa til skoðunar hvernig skemmdir á sæstreng milli Litáens og Lettlands komu til. Skemmdir á netsæstrengnum sem liggur um Eystrasaltið komu í ljós fyrir helgi. Almannavarnastofnun Litáens (NKVC) segir of snemmt að segja til um hvort rússnesk stjórnvöld beri ábyrgð. Skemmdirnar höfðu ekki áhrif á nettengingu lettneskra notenda, en óvíst er með notendur í Litáen. „Við erum að meta mögulegar afleiðingar af þessari uppákomu,“ segir yfirmaður NKVC. Lögregluyfirvöld í Lettlandi grunaði fyrst að skip, sem síðar kom í höfn einhvers staðar í Eystrasaltinu, hefði unnið skemmdir á strengnum. Það reyndist þó ekki rétt eins og síðar kom í ljós. Viðgerðir standa yfir á strengnum og talsmaður fyrirtækisins sem á hann, Arelion, segir að það vinni með lögregluyfirvöldum til þess að komast til botns í því hvað gerðist. Fjölmargar uppákomur hafa orðið á Eystrasalti síðustu ár þar sem skemmdir hafa verið unnar á sæstrengjum sem þar liggja. Rússum hefur oftar en ekki verið kennt um. Síðast á gamlársdag vöknuðu grunsemdir um skemmdarverk á streng milli Finnlands og Eistlands. Skemmdir voru unnar á streng milli Lettlands og Svíþjóðar í janúar í fyrra og þá komu nokkur slík mál upp í lok árs 2024 og lá áhöfn á kínversku skipi meðal annars undir grun. Fjórir sæstrengir tengja Ísland við umheiminn og nær öll miðlun rafrænna upplýsinga fer um þá; FARICE-1 til Færeyja og Skotlands, DANICE til Danmerkur, IRIS til Írlands, og svo einn strengur frá Íslandi til Grænlands, sem mjög lítið er notaður vegna bilana.