Stefnt er að því að draga verulega úr hættu á riðuveiki í sauðfé á næstu árum og útrýma henni hér á landi á næstu tuttugu árum. Þetta er megininntak nýrrar reglugerðar um riðuveiki í fé sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur sett. Breyta á baráttuaðferðum gegn riðuveiki þannig að ekki verði lengur reynt að útrýma smitefninu heldur rækta fjárstofn sem er með verndandi aðgerðir gegn riðuveiki. Beina á aðgerðum gegn riðuveiki að þeim bæjum sem eru taldir í mestri áhættu en ekki jafnt að öllum bæjum í viðkomandi varnarhólfi. Bæjum verður skipt í þrjá flokka. Riðubæir nefnast þeir bæir þar sem dæmigerð riðuveiki hefur verið staðfest og sæta þeir ákveðnum takmörkunum. Bæir með faraldursfræðilegar tengingar við riðubæ síðustu sjö ár fyrir staðfest riðusmit teljast áhættubæir. Bæir sem falla undir hvoruga þessa skilgreiningu nefnast svo aðrir bæir. Einfalda á stjórnsýslu og sér ráðherra fyrir sér að það dragi úr kostnaði ríkisins við það að riða komi upp á færri bæjum með bættum aðferðum.