Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, kveðst sátt við þau svör og skýringar sem utanríkisráðherra hafi veitt á fundi utanríkismálanefndar í morgun vegna þeirrar stöðu sem uppi er eftir aðgerðir Bandaríkjanna gegn Venesúela um helgina. Hún telur ljóst að aðgerðirnar stangist á við alþjóðalög en hún væntir þess að þingnefndin muni eiga enn reglulegri fundi með utanríkisráðherra og fulltrúum ráðuneytisins í ljósi þeirra víðsjárverðu tíma sem uppi eru í alþjóðakerfinu. Það muni reyna enn frekar á stjórnmálamenn hér sem annars staðar að takast á við nýjan veruleika.