Djúpivogur er skrefi nær hitaveituvæðingu, þar sem HEF veitur hafa ákveðið að forhanna lagnir frá jarðhitasvæði á Búlandsnesi að sundlaug bæjarins. Við Djúpavog hefur yfir 40 gráðu heitt vatn runnið úr borholum í um 18 ár án þess að vera nýtt að ráði. Heimamenn og ferðafólk hafa baðað sig upp úr vatninu í gömlum oskakörum. Í síðasta mánuði lauk frekari borunum en vatnshitinn mælist enn aðeins rúmar 46 gráður. Það dugir ekki til að hitaveituvæða þorpið en gæti mögulega nýst í sundlauginni og sparað Múlaþingi talsverðar fjárhæðir. Glúmur Björnsson, jarðfræðingur hjá HEF veitum, segir að hönnun á rúmlega þriggja kílómetra stofnlögn inn í þorpið og í sundlaugina leiði í ljós hvort framkvæmdin verði arðbær. Frekari leit að jarðhita haldi áfram með mælingum og borunum. Á jarðhitasvæðinu á Búlandsnesi hefur fundist svokallaður kísilhiti upp á 75 gráður sem gefur von um að þar leynist heitara vatn.