Stjórnvöld myndu aldrei heimila aðgerð frá Íslandi sem ógnaði Grænlandi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir gott að finna að það ríki algjör samstaða um það að gæta að varðstöðu um íslenska hagsmuni. Fundur utanríkismálanefndar í morgun hafi verið mikilvægur og upplýsandi. Það hafi verið gott að ræða við þingmenn þvert á flokka og heyra þeirra mat á stöðunni. „Ég tel það líka mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vera í mjög miklum og djúpum samskiptum við norrænu vinaþjóðir okkar og við aðrar líkt þenkjandi þjóðir,“ segir Þorgerður. „Samstarfið við Norðurlöndin er gríðarlega mikilvægt á þessum tímum. Við höfum ítrekað lýst yfir stuðningi, bæði við Grænland og Konungsríkið Danmörku um að það verði til að mynda ekkert gert við Grænland án þess að Grænlendingar ráði því sjálfir. Það er mjög rík samstaða meðal Norðurlandaþjóðanna hvað þetta varðar.“ Utanríkisráðherra segir samstarf við Bandaríkin í öryggis- og varnarmálum hafa verið gott og að varnarsamningurinn sé grunnstoð í varnarstefnu Íslands. Rík samstaða sé á meðal Norðurlandaþjóðanna um að Grænlendingar og Danir ráði framtíð Grænlands. Spurð að því hvort það sé eitthvað sem stjórnvöld geti gert ef bandarísk stjórnvöld fylgi eftir hótunum sínum í garð Grænlands og vilji í því samhengi nýta aðstöðu hér á landi segir Þorgerður að íslensk stjórnvöld hafi forræði yfir landinu. Samstarf við Bandaríkin gott „Við höfum fullveldi og yfirráðarétt yfir okkar landi. Við höfum ítrekað sagt það að grunnstoðir í varnarstefnu okkar Íslendinga er varnarsamningur við Bandaríkin og ég vil draga það fram að samstarf okkar, ekki síst eftir 2006 þegar herinn fór, hefur verið mjög gott. Það hefur einkennst af virðingu og af einlægni og það hefur ekkert breyst,“ segir Þorgerður. Því til viðbótar sé aðildin að Atlantshafsbandalaginu hin grunnstoðin í vörnum landsins. Gerðir hafi verið tvíhliða samningar við Þýskaland og Finnland á liðnu ári til að efla varnir landsins og unnið er að því að gera slíkan samning við Evrópusambandið. „Bara þannig að ég tali alveg skýrt, því þú nefndir Grænland. Við myndum aldrei heimila einhverja aðgerð héðan frá Íslandi sem að myndi ógna Grænlandi. Bara svo það sé alveg skýrt,“ segir Þorgerður Katrín.