„Mér finnst þetta vera ágætis byrjun en svo þarf að halda áfram,“ segir Blanca Pirela, 71 árs gömul kona frá Venesúela sem býr í Flórída um handtöku Nicolas Maduros á laugardaginn. Maduro var handtekinn í árás bandaríska hersins á höfuðborgina Caracas og hefur verið ákærður fyrir fíkniefnainnflutning í Bandaríkjunum. Við verðum eiginlega að bíða eftir því og sjá hvaða kröfur Bandaríkin gera nákvæmlega á stjórnvöld í Venesúela Blanca er ein af mörgum milljónum Venesúelabúa sem hafa flúið landið á liðnum árum. Ástæðan er sú að Maduro og fyrirrennari hans, Hugo Chavez, hafa stýrt Venesúela eins og einræðisríki um árabil. Blanca er andstæðingur Nicolas Maduros og telur hún að Venesúela sé betur sett án hans þar sem helstu innviðir samfélagsins - til dæmis skólakerfið, heilbrigðiskerfið og almenningssamgöngur - hafa ekki virkað sem skyldi í mörg ár. Hún segir að fyrsta skrefið hafi verið að losna við Maduro en að svo þurfi að taka til hendinni og byggja samfélagið í Venesúela aftur upp. Hún er á þeirri skoðun að þetta hafi aðeins verið hægt með aðkomu Bandaríkjanna. Eitt af þeim atriðum sem hafa verið talsvert í umræðunni eftir árásina er hvaða áhrif handtaka Nicolas Maduro muni hafa á þá Venesúelabúa sem hafa flúið landið á liðnum árum. Rúmlega þúsund Venesúelabúar eru til dæmis búsettir á Íslandi. Sumir hafa fengið vernd vegna ástandsins í Venesúela en aðrir bíða eftir endanlegum svörum. Blanca er ánægð með það að Maduro hafi verið handtekinn og að landið sé laust við hann. Hun bindur vonir við að geta flutt aftur til heimalands síns frá Bandaríkjunum á næstu 2 til 3 árum. Hún segir hins vegar að núna ríki lögleysa í landinu og að það sé hættulegt að flytja aftur til landsins á þessari stundu. Fjallað er um stöðuna í Venesúela eftir árás helgarinnar og handtöku Maduros í fréttaskýringaþættinum Þetta helst í dag. Í þættinum er meðal annars rætt við Blöncu Pirela en þáttastjórnandi bjó á heimili hennar í borginni Maracaibo í Venesúela í tæpt ár þegar hann var skiptinemi þar í landi á árunum 1998 til 1999. Þáttinn má hlusta á hér: Erlingur Erlingsson setur árásina í Caracas og handtöku Nicolas Maduros í samhengi við aftöku Osama Bin Laden árið 2011. Margir Venesúelabúar fagna handtöku Maduros. Erlingur setur spurningamerki við aðferðir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Hvað gerist næst í Venesúela? Í Þetta helst er einnig rætt við Erling Erlingsson hernaðarsagnfræðing um atburði helgarinnar. Hann er meðal annars beðinn um að lýsa ástandinu í Venesúela núna. Varaforsetinn Delcy Rodriguez sagði fyrst eftir handtöku Maduros að Venesúela yrði ekki að nýlendu Bandaríkjanna. Svo dró hún í land eftir að Donald Trump hótaði henni og virðist hún nú vera viljug til að ræða við Bandaríkin um framtíð Venesúela. Erlingur segir að Donald Trump reki nú það sem hann kallar „gunboat diplomacy“ í Venesúela. Þetta er í raun að beita hótunum og að boða frekari hernað í Venesúela. „Það sem framundan er er að Bandaríkin ætla að reka það sem á 19. öld var kallað „gunboat diplomacy“. Þá voru það Bretar og Bandaríkin og aðrar sterkar flotaþjóðir sem beittu þrýstingi í krafti flotans til að fá ríki til að haga sér eftir því sem þeir vildu. Það er svolítið staðan núna. Þessi óvígi floti er ennþá undan ströndum Venesúela og Trump er með miklar hótanir. Þannig að við eigum eftir að heyra hvað þeir vilji að Rodriguez, tímabundni forsetinn eða varaforsetinn geri nákvæmlega. [...] Ég reikna með að stjórnvöld í Caracas séu að reyna að þræða svolítið, hvernig þau geti haldið völdum og þurfi ekki að setja landið í hendurnar á réttkjörinni stjórnarandstöðu [...] Við verðum eiginlega að bíða eftir því og sjá hvaða kröfur Bandaríkin gera nákvæmlega á stjórnvöld í Venesúela,“ segir Erlingur. Með orðum sínum um óvíga flotann vísar Erlingur til þess að Donald Trump hefur á síðustu vikum sent fjölmörg herskip að ströndum Venesúela. Yfirlýst markmið þessara herskipa er að berjast gegn meintum innflutningi á fíkniefnum sjóleiðina frá Venesúela. Sérfræðingar í alþjóðamálum, meðal annars Erlingur Erlingsson, hafa dregið réttmæti þessara skýringa í efa. Fjallað var um þetta atriði meðal annars í sérstökum áramótaþætti þann 1. janúar síðastliðinn. Þar var rætt um friðarverðlaunahafa Nóbels, Mariu Corinu Machado, einn helsta stjórnarandstæðinginn í Venesúela, og stöðuna í landinu fyrir árásina um helgina. Þann þátt má hlusta á hér: Erlingur Erlingsson setur árásina í Caracas og handtöku Nicolas Maduros í samhengi við aftöku Osama Bin Laden árið 2011. Margir Venesúelabúar fagna handtöku Maduros. Erlingur setur spurningamerki við aðferðir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.