Björgunarskip kölluð út vegna neyðarkalls frá fiskveiðibáti

Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein í Sandgerði og björgunarbáturinn Árni í Tungu úr Grindavík hafa verið kölluð út vegna neyðarkalls frá fiskveiðibáti. Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir tilkynningu um leka um borð hafa borist korter yfir fjögur. Báturinn er um tvær sjómílur vestur af Reykjanesvita. Jón Þór segir að ekki sé yfirvofandi hætta á áhöfn eins og staðan er núna, önnur en að það hafi komið upp leki. Þyrla Landhelgisgæslunnar var líka kölluð út til þess að flytja dælur á vettvang. Vonast sé til að hægt verði að dæla úr bátnum. Björgunarskipin eru á leið á vettvang.